149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

hvatar til nýsköpunar.

[15:06]
Horfa

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir (Sf):

Herra forseti. Menntun og nýsköpun eru forsenda samkeppnishæfni þjóða og hagvaxtar. Þetta veit hæstv. ríkisstjórn eins og sáttmáli hennar ber glöggt vitni um.

Fyrr í þessum mánuði hlaut Paul Romer nóbelsverðlaunin í hagfræði fyrir að sýna hvernig þekking, rannsóknir og mannauður drífa áfram efnahagslegar framfarir. Þekktasta rannsókn Romers sýnir að tilhneigingin sé að verja of litlum mannafla í rannsóknir án inngripa sem þýðir á mannamáli að það þarf inngrip til að styðja við nýsköpun, rannsóknir og þróun í samfélögum.

Íslensk þekkingar- og nýsköpunarfyrirtæki hafa gagnrýnt þakið sem er á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja og fjöldi nýsköpunarfyrirtækja hefur flutt þessi verðmætu störf til landa sem bjóða betur. Í stjórnarsáttmála segir að endurmeta skuli endurgreiðslukostnað vegna rannsóknar og þróunar, í því skyni að afnema þak sem verið hefur á slíkum endurgreiðslum.

Fjárlagafrumvarp hæstv. ríkisstjórnar boðar hins vegar ekki með afgerandi hætti afnám þaks á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar nýsköpunarfyrirtækja. Ef ætlunin er að gera þetta hægar en upphaflega var gefið undir fótinn með þá hefur það strax áhrif á samkeppnishæfi fyrirtækja.

Því spyr ég hæstv. ráðherra nýsköpunarmála: Hvers vegna er afnám þaks á endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar ekki sett í forgang þar sem það er sú aðgerð sem talin er örva nýsköpun, styðja við hugvitsdrifinn iðnað og bæta samkeppnishæfni almennt?