149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

hvatar til nýsköpunar.

[15:08]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er alveg rétt sem þarna kemur fram, að þetta skiptir okkur miklu máli. Við höfum á undanförnum árum stigið mikilvæg skref í þessa veru og þetta þak var hækkað fyrir þremur árum, ef ég fer rétt með, frekar en tveimur. Sú breyting hefur skilað árangri og henni var fagnað mjög, ekki bara af sprotafyrirtækjum eða ungum fyrirtækjum sem eru að stækka heldur af fyrirtækjum sem stunda rannsóknir, nýsköpun og þróun.

Í stjórnarsáttmálanum er talað um að það sé markmið að afnema þakið. Þar er ekki sérstök tímasetning. Við leggjum upp með að það verði gert í skrefum. Gert er ráð fyrir því í fjármálaáætlun að bæta við 600 milljónum, að því marki sem hægt er að áætla svona lagað, við getum sem betur fer ekki stýrt því hversu dugleg fyrirtæki eru í rannsóknum og þróun. En sú breyting mun líka skipta máli.

Ég hef lagt áherslu á að líta til þeirra landa sem standa okkur framar hvað varðar útfærslu á því að afnema þakið. Framkvæmdin á því hlýtur að skipta máli. Það kallar á mikið samstarf við fjármálaráðuneytið og sú vinna er í gangi. En eins og ég segi, það var ekki tímasett í stjórnarsáttmála hvenær þakið yrði afnumið. Við erum að stíga markviss skref, stigum markviss skref fyrir nokkrum árum og erum að stíga markviss skref núna. Markmiðið er enn að afnema þakið.

Við leggjum áherslu á að verða öflug þarna. Við getum ekki keppt á öllum vígstöðvum en á þessum stað ætlum við að vera samkeppnishæf og þess vegna stígum við þessi skref, með það að markmiði að afnema þakið.