149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

hvatar til nýsköpunar.

[15:10]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Fyrst varðandi niðurskurðinn þá hefur hann eðlilegar skýringar. Inni í þessari tölu eru t.d. rúmlega 100 milljónir sem farið hafa í verkefnið á Bakka, sem nú er að líða undir lok og eðlilegt að það falli brott, og nokkur önnur atriði líka sem eðlilegt er að hverfi.

Spurt er hvort það endurspegli forgangsröðunina. Ég hef fengið þá spurningu áður, bæði í fyrra og núna, hvort ég sé ánægð með þá upphæð sem fer í nýsköpunarmál. Þá hef ég sagt að ég leggi á það áherslu að við förum yfir það hvort þeir fjármunir, sem eru töluverðir, um 8–10 milljarðar á ári sem fara í nýsköpun, séu allir á réttum stað, hvort þeir vinni þá vinnu sem við viljum að þeir sinni eða hvort færa eigi þá til. Ég lít svo á að það hversu öflugt nýsköpunarland við erum og hversu dyggilega stjórnvöld styðja við nýsköpun snúi ekki eingöngu að fjárútlátum ríkisins í þá veru, heldur frekar að umhverfinu. (Forseti hringir.) Að því vinnum við statt og stöðugt. Nýsköpunarvinnan er auðvitað lykilatriði þar. Það getur verið að þar komi tillögur (Forseti hringir.) sem kalla munu á aukin útgjöld eða tilfærslur á þeim fjármunum.