149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

dómur um innflutning á hráu kjöti.

[15:12]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. EFTA-dómstóllinn kvað upp dóm gegn Íslandi þann 14. nóvember 2017 þar sem ákvæði íslenskra laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og varnir gegn því að sýktar afurðir berist til landsins séu brot á tilskipun Evrópusambandsins. Mál þetta er gjarnan nefnt hráakjötsmálið og felst í stuttu máli í því að bann við innflutningi á hrárri og unninni kjötvöru, eggjum og mjólk samrýmist ekki ákvæðum EES-samningsins.

Hingað til hefur verið óheimilt að flytja inn kjöt til landsins sem ekki hefur verið fryst. Bannið kom á óvart þar sem heimild er í 13. gr. samningsins til að vernda búfé og lýðheilsu þar sem hætta væri á að smit bærist til landsins með hráu kjöti.

Eftir EFTA-dóminn lögðu Bændasamtök Íslands áherslu á að viðræður yrðu teknar upp við Evrópusambandið til að leita leiða til að viðhalda frystiskyldunni.

Ég vil byrja á því að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað fór fram á fundum íslenskra embættismanna og ESB út af þessum EFTA-dómi? Hvaða viðræðum var leitað eftir? Hvert var markmið þeirra? Munu þær halda áfram?

Í síðustu viku dæmdi Hæstiréttur Íslands að íslenska ríkið hefði brotið gegn skuldbindingum sínum gagnvart EES-samningnum með því að viðhalda banni við innflutningi á hráu kjöti til landsins. Það sem vekur sérstaka athygli við dóminn er hversu stuttur hann er. Dómurinn víkur í engu að mikilvægri röksemdafærslu ríkisins, t.d. hvað varðar dýrasjúkdóma.

Ég vil því spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra: Hver eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við þessum dómi? Hvað sér hæstv. ráðherra fyrir sér með framhaldið? Mun ráðherra nú leggja fram frumvarp sem heimilar allan innflutning á hráum matvörum og öðrum dýraafurðum, innmat, gærum o.s.frv., og stefna þar með okkar hreina landbúnaði í hættu?