149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

deilur Rússa við Evrópuráðið.

[15:19]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Sú sem hér stendur er í Íslandsdeild Evrópuráðsþingsins fyrir hönd Alþingis. Það er af þeim sökum sem ég kem hér upp og tala við hæstv. utanríkisráðherra um Evrópuráðið, sem er helsti framvörður mannréttindaverndar í Evrópu og víðar.

Eins og ráðherra er kunnugt hefur starfsemi Evrópuráðsþingsins verið í uppnámi um þó nokkurn tíma vegna fjarveru sendinefndar Rússa frá þinginu allt frá árinu 2015 og síðar vegna þess að Rússar hafa neitað að borga sín lögbundnu meðlimagjöld í meira en ár.

Segja má að deila Rússa við Evrópuráðið hafi náð ákveðnum suðupunkti í liðinni viku á nýafstöðnu þingi Evrópuráðsþingsins þegar ekki tókst að ná í gegn ákveðnum breytingum á þingsköpum Evrópuráðsþingsins sem hefði mátt líta á sem skref í átt til sátta á milli Rússlands og Evrópuráðsþingsins. Í ljósi þessara atburða má leiða að því líkur að Rússar yfirgefi Evrópuráðið á einn eða annan hátt með alvarlegum afleiðingum fyrir framtíð Evrópuráðsins og þeim mun alvarlegri afleiðingum fyrir borgara Rússlands sem þá munu ekki lengur njóta verndar mannréttindasáttmála Evrópu.

Spurning mín til ráðherra, út af þessari atburðarás, er tvíþætt. Í fyrsta lagi: Hvað hyggst ráðherra gera til að beita sér fyrir því að reyna að ná sáttum og halda Rússum inni, ef eitthvað? Og: Ef allt fer á versta veg og Rússar ganga úr Evrópuráðinu, mun ráðherra beita sér fyrir því að hin eftirstandandi 46 aðildarríki hlaupi undir bagga með Evrópuráðinu hvað fjármagn varðar og leggi til þau 10% fjárlaga Evrópuráðsins sem tapast við útgöngu Rússa?