149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

deilur Rússa við Evrópuráðið.

[15:24]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Herra forseti. Ég þakka svarið. Ég vil þá beina því til hæstv. ráðherra að leggjast yfir málið sem fyrst. Ég hafði ekki séð fyrir mér að Ísland yrði leiðandi í samningaviðræðum við Rússa hvað Evrópuráðið varðar, en að við værum alla vega meðvituð um þá stöðu sem nú er uppi og værum tilbúin að beita okkur í átt til sátta ef á þyrfti að halda. Mig skorti hins vegar svar við þeirri spurningu hvort hæstv. ráðherra sjái fyrir sér að leggja til aukin framlög til Evrópuráðsins til að koma til móts við þau 10% sem Evrópuráðið missir úr fjárlögum sínum við útgöngu Rússa. Mögulega bæti ég þeirri spurningu við hvort ráðherra gæti séð fyrir sér samvinnu hinna svokölluðu NB8-ríkja, eða alla vega Norðurlandanna, hvað það varðar að koma til móts við niðurskurðinn; ganga fram með góðu fordæmi, lýsa því jafnvel yfir fljótlega að við séum reiðubúin að koma til móts við vandann. Ef það kæmi frá litla Íslandi væri t.d. erfiðara fyrir Þýskaland að koma sér undan því. Þessir peningar eru smámunir í hinu alþjóðlega samhengi. Þetta er gríðarlega lág upphæð ef horft er á miklu stærra alþjóðlegt samstarf þar sem miklu meiri (Forseti hringir.) peningar eru í spilinu. Mun ráðherra beita sér fyrir því að við þurfum ekki að horfa fram á gríðarlegan niðurskurð (Forseti hringir.) á starfi Evrópuráðsins í framtíðinni?