149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

rannsókn sjálfsvíga.

[15:27]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Á síðasta ári urðu 13 banaslys í umferðinni. Þegar banaslys verður í umferðinni þá stoppar öll umferð þar sem banaslysið varð. Kölluð er út rannsóknarnefnd. Blá ljós blikka og vettvangur slyssins er rannsakaður, myndaður, gerð er skýrsla; það er allt undir í þeim eina tilgangi að sjá til þess að ekki verði slys aftur, til að reyna að koma í veg fyrir slys.

Á sama tíma hafa rúmlega helmingi fleiri en farast í bílslysum tekið eigið líf. Ungt fólk í blóma lífsins. Það blikka engin blá ljós. Hvað gerist þegar einstaklingur sviptir sig lífi? Hvar er rannsóknarteymið? Hverjir fara á staðinn? Hverjir gera skýrslur til að upplýsa aðstandendur? Ekkert, bara skráð.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Er ekki kominn tími til að við gerum eitthvað í þessu máli; að það skipti ekki máli hvernig fólk deyr, að þessi mál séu rannsökuð til þrautar? Það er ekki eðlilegt að við segjum að það sé allt í lagi að fólk svipti sig lífi, að aðstandendur eigi engin svör að fá og við ætlum bara að yppta öxlum. Ef fólk deyr í umferðarslysum skiptir ástæðan öllu máli, hvers vegna slysið varð og annað, allt rannsakað.

Ég vil spyrja ráðherra: Er hann ekki sammála mér í því að við þurfum að fara að rannsaka þetta vel og vendilega?