149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

rannsókn sjálfsvíga.

[15:32]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kom víða við í seinni spurningu sinni. Ég vil segja það hér afar skýrt að við erum að bæta verulega í geðheilbrigðismál á fjárlögum — höfum gert það hingað til, á fjárlögum yfirstandandi árs, og munum gera enn betur á árinu 2019, ekki síst að því er varðar geðheilbrigðisþjónustu í heilsugæslunni og úti um land. Við erum að bæta við sálfræðingum og geðheilsuteymum alls staðar á vettvangi heilsugæslunnar.

Hv. þingmaður nefnir það sem talað hefur verið um af hálfu samtaka fyrirtækja í velferðarþjónustu sem telja sig verða fyrir skerðingu vegna skertra fjárveitinga, en ég vísa þeim yfirlýsingum á bug. Fjárheimildir hafa verið uppreiknaðar árlega, rekstrargrunnur þessara heimila hefur verið styrktur um 1,5 milljarða, þ.e. 6% þegar þessi samningur tók gildi 2016, og heildarútgjöld til daggjaldastofnana voru fyrir gildistöku rammasamningsins 2016 27,2 milljarðar en eru, samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2019, 34,7 milljarðar, sem er tæplega 28% hækkun á þessu tímabili.