149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

innflutningur á fersku kjöti.

[15:36]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Svarið við spurningu hv. þingmanns er nei. Það hvarflar ekki einu sinni að mér að hverfa frá þeim samningi sem þar er um að ræða, það er mjög einfalt mál.

Þegar við ræðum þennan svokallaða hráakjötsdóm þá er alveg rétt að þetta hefur legið fyrir í allnokkurn tíma, stefna ríkisstjórnar 2009–2013 og sömuleiðis frá 2013–2016 var sú að halda uppi vörnum í málinu og það var á þeim tíma ekkert gert til undirbúnings annarri niðurstöðu en þeirri að lögin héldu. Nú blasir niðurstaðan við og þetta er flókið úrlausnarefni. Það er það.

Í mínum huga snýst málið núna númer eitt, tvö og þrjú um það að fá viðbótartryggingar gagnvart salmonellusýkingum sem nágrannaríki okkar hafa fengið. Það mun taka einhvern tíma að ná því. Sömuleiðis að reisa varnir gagnvart kampýlóbaktersmiti. Bæði þessara mála eru í vinnslu. Þegar við ræðum innflutning eða viðskipti við Evrópusambandið er okkur sömuleiðis hollt að hafa í huga að um 90% af þeim vörum sem við flytjum inn frá Evrópusambandinu til Íslands eru án tolla meðan hlutfallið hinum megin hafsins er 29%. Það er því ekki hægt að halda því fram, sem ég veit að hv. þingmaður er ekki að gera en ég vil undirstrika það, að Ísland sé mjög lokað land í þeim samanburði sem oft vill verða á tollastefnu okkar hér og þeirri tollastefnu sem rekin er í Evrópusambandinu. Ég held að við séum miklu opnara land að þessu leytinu til.