149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

innflutningur á fersku kjöti.

[15:40]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Já, ég deili þeim áhyggjum með hv. þingmanni. Niðurstaða Hæstaréttar er mjög skýr og afdráttarlaus og liggur klárlega fyrir. Ég tók hins vegar eftir því í fréttum í gær, minnir mig, þar sem framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda tjáði sig í spjallþætti, að hann mæltist til þess og ræddi þetta á þann veg að eðlilegt væri að við reistum varnir gegn salmonellu og kampýlóbakter og þegar þær lægju fyrir leiddum við þetta í lög. Ég deili alveg þeirri skoðun, horfi þannig til.

Það mun taka okkur tíma, eins og ég nefndi hér áðan, að sækja þessar viðbótartryggingar. Það tók Dani eða Norðmenn tíu ár. Við erum að gæla við og vonast eftir að það taki okkur ár. Ég sótti um þetta nú í sumar. Það var búið að undirbúa nýja landsáætlun sem þurfti að liggja fyrir. Þannig að við höfum verið í kappi við tímann í allnokkra mánuði að tryggja stöðu okkar að þessu leyti til. (Forseti hringir.) Að þessu er unnið eins hratt og vel og við getum. Ég bið menn hins vegar að hafa í huga að þetta þýðir mjög miklar og stórar áskoranir fyrir hráakjötsmarkaðinn hér á landi, bændur þar með.