149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

heilsuefling eldra fólks.

[15:46]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka ráðherra þessi svör. Ég held að við séum öll sammála um hvaða leið við viljum fara. Við erum í samfélagi okkar búin að hólfa allt of mikið niður, við erum oft og tíðum of stíf í forminu í stað þess að reyna að láta kerfin okkar tala betur saman. Þó erum við að reyna það víða og það er að takast á einhvern hátt, samanber það að sálfræðingum hefur verið bætt inn í heilsugæslunni. Ég held að það hafi verið mjög gott skref. Það er verið að auka áhersluna á að menn vinni í teymum. Þar sem það hefur verið gert, t.d. á Austurlandi þar sem ég þekki til, hefur það komið mjög vel út. Fólk úr mismunandi greinum heilbrigðisþjónustunnar er að vinna saman. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt.

Ef maður fer aðeins að hugsa um framtíðina, þegar allt verður orðið sjálfvirkt og sjálfvirkar græjur þrífa allt og sinna jafnvel persónulegustu þörfum, getum við kannski farið að leggja meiri áherslu á mannlega þáttinn; verið meira saman, talað saman og hreyft okkur saman.