149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

heilsuefling eldra fólks.

[15:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það í meginatriðum og vil líka nefna að það liggur fyrir og mér er kunnugt um það að fleiri sveitarfélög hafa lýst áhuga á því að fara svipaðar leiðir og með ámóta áætlanir eins og verið er að gera í Hafnarfirði og Reykjanesbæ. Ég hef fengið mjög góða kynningu á þessum verkefnum og það er ekki bara þannig að þegar maður horfir á þau á færi að manni finnist þau sniðug og jákvæð og allt svoleiðis, heldur er beinlínis mælanlegur árangur af þeim sem sýnir sig í mælingum á tilteknum heilsufarsþáttum með ákveðnu millibili. Það er alveg víst að opinberu fé, hvort sem það er á vettvangi sveitarfélaga eða ríkis, er skynsamlega ráðstafað í verkefni af þessu tagi. Ég vil segja það fyrir mína parta og ráðuneytisins að við munum styðja verkefni af þessum meiði með ráðum og dáð. Ég vil fagna sérstaklega frumkvæði sveitarfélaganna í þessa veru.