149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

staða sauðfjárbænda.

[15:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu þakka hv. þingmanni þá umræðu sem hann hefur hér og ætla að stikla á stóru og svara þeim þremur spurningum sem hann nefndi við lok sinnar ræðu.

Fyrst af öllu vil ég staldra við þá spurningu sem lýtur að því hver staða viðræðnanna er. Þær hófust formlega í ágúst. Ég fékk um mánaðamótin júní/júlí í hendur tillögur samráðshópsins um endurskoðun búvörusamninganna að því sem laut að sauðfjárræktinni. Hinar formlegu viðræður milli ráðuneytisins og Bændasamtakanna hófust eins og ég gat um áðan einhvern tímann um 20. ágúst. Þær hafa í mínum huga og samkvæmt mínum upplýsingum gengið ágætlega, margvíslegar hugmyndir ræddar. Ég hef lagt á það áherslu við mitt fólk í samningunum að ræða og taka vel í þær hugmyndir sem hafa komið frá bændum, en sömuleiðis að leggja mikla áherslu á að auka frelsi bænda. Mín megin er áherslan sú að auka frelsi bænda til þess að nýta stuðninginn til fjölbreyttari starfsemi en áður hefur verið, draga úr framleiðsluspennu og leggja ríkari áherslu á innanlandsmarkað til að ýta undir meira jafnvægi á markaði. Ég veit til þess að fulltrúar beggja aðila hafa lagt sig fram um að ná saman um meginlínur, en eiga eftir að ganga frá ýmsum smærri álitaefnum og einhverjum lagatæknilegum atriðum.

Þegar spurt er að því hvort ráðherra sé tilbúinn til þess að fara inn í gildandi samning til þess að stöðva niðurtröppun á greiðslumarki um komandi áramót þá er ég alveg til í það ef samkomulag næst milli aðila um þau efni í samninganefndinni. Í núgildandi samningi í grein 15.2 er kveðið á um þessa niðurtröppun beingreiðsla, hún skuli endurskoðuð árið 2019, en ef markmið um 7,5% aukningu á hlut bænda í heildarverðmætasköpun greinarinnar næst ekki frá 1. janúar 2017 til ársins 2019 þá skuli þetta gert. Svo það sé sagt þá er nánast útilokað að þetta markmið náist. Af sjálfu leiðir því að við hljótum að fara inn í samninginn. Einn liður í þeim viðræðum sem standa yfir núna er umræða um það hvernig hægt er að skerpa á því ákvæði sem snýr að samspili beingreiðslna og gæðastýringargreiðslna. Samningurinn eins og hann liggur gerir ráð fyrir því raunar að beingreiðslurnar dragist saman ár frá ári og verði komnar í núll árið 2026, við lok gildistíma þess samnings sem fyrir liggur.

Ég svara því þessari spurningu hv. þingmanns með jákvæðum hætti en hef þann fyrirvara að enn standa yfir viðræður milli aðila og samningar eru í sjálfu sér ekki komnir til enda.

Loks er spurt hvort fyrir liggi einhverjar hugmyndir eða tillögur um mótaðar breytingar á lagaumhverfi afurðageirans í sauðfjárrækt sem gætu leitt til hagræðingar. Já, það liggja fyrir hugmyndir samstarfshópsins um endurskoðun búvörusamninganna um möguleika á samstarfi innan geirans, sérstaklega því sem lýtur að flutningi sláturgripa og slátrun. Ég veit ekki nákvæmlega hvar vinnan við þetta er stödd, en ég legg áherslu á að það sem kæmi til með að koma upp í þessum efnum verður að standast meginreglur samkeppniseftirlits og þeirra þátta sem snúa að því. Ég hef enga trú á öðru en því að hægt sé að útfæra hugmyndir í þessa veru á þann veg að það gangi upp ef vilji manna stendur til þess.

Ég vil svo nefna rétt í lokin á mínu máli — það vantar klukkuna hér í púltið, bara nefna það til upplýsingar — að ég átti fund í morgun með landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Kína. Það er örlítið stærra ráðuneyti en hér er. Það liggur fyrir samningur milli Kína og Íslands sem utanríkisráðherra gekk frá. Ég nýtti mér það og gekk frá samstarfsyfirlýsingu við þennan kollega minn í Kína um möguleika á því að markaðssetja m.a. sauðfjárafurðir í Kína. Ég tel fullt af möguleikum þar. Þeir borða árlega um 80 milljónir tonna af kjöti, þeir sem búa í kínverska alþýðulýðveldinu. Lítill hluti af því er lamb, ekki nema 5 milljónir tonna. Við erum hér með heildarársframleiðslu rétt rúmlega 10.000 tonn og erum að kvarta undan því að það sé offramleiðsla. Við hljótum að eiga möguleika á því að geta komið nokkrum hluta, þó ekki væri nema læri og skankar, í austurveg. Það verður fróðlegt að sjá með hvaða hætti (Forseti hringir.) við getum ræktað sambandið á þessu sviði við Kína.

(Forseti (ÞórE): Svo virðist vera sem eitthvert ólag sé á klukkunni. Falli það ekki í ljúfa löð núna hyggst forseti gefa nett merki með bjöllunni þegar hálf mínúta er eftir. En að öllum líkindum er þetta komið í lag og við vonum það besta.)