149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

staða sauðfjárbænda.

[16:03]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta mál upp. Hv. þingmaður sem talaði hérna á undan mér talaði um að bændur hefðu það frekar skítt. Þeir hafa það svo skítt margir hverjir að þeir þurfa að vinna fulla vinnu meðfram því að vera í búskap, þá er ég að tala um sauðfjárbændur. Það er alveg óásættanlegt.

Staðan er nákvæmlega sú sama, ef ekki verri en hún var á sama tíma í fyrra þegar við vorum í kosningabaráttunni. Þegar ég var að hugsa um hvað ég ætti að tala um þá kom mér í hug kosningastefna okkar í Miðflokknum. Langar mig að vitna hér í hana, með leyfi hæstv. forseta:

„Hér á landi búum við Íslendingar að því að eiga okkar eigin landbúnaðarframleiðslu sem okkur ber að standa vörð um og styðja með öllum tiltækum ráðum. Það má ekki gleyma því að stuðningur við íslenskan landbúnað er ekki síður stuðningur við neytendur sem þannig er tryggður aðgangur að heilnæmum matvælum. Allar nágrannaþjóðir okkar og flestar þjóðir heims styðja sinn landbúnað og vernda. Íslendingar verða því að standa vörð um eigin framleiðslu með sama hætti eigi hún að standast samkeppni. Auk þess skilar stuðningur við landbúnað sér margfalt til baka í verðmæti og atvinnusköpun, bæði í dreifbýli og þéttbýli, og er um leið skynsamlegasta leiðin til að halda landinu öllu í byggð, en hlutverk landbúnaðarins í byggðamálum er stórlega vanmetið.

Því er mikilvægt að hugsa um heildarhagsmuni landsins alls og leiðrétta kjör bænda Ef ekki er hugað að því verður hvorki fæðuöryggi þjóðarinnar né matvælaöryggi tryggt.“

Það er því furðuleg tilhögun að samhæfa skrifstofu matvæla og landbúnaðar undir skrifstofu alþjóðamála. Nær hefði verið að styrkja skrifstofu matvæla og landbúnaðar og auka þannig vægi íslensks (Forseti hringir.) landbúnaðar innan ráðuneytisins í stað þess að koma skrifstofunni fyrir að því er virðist í skúffu á skrifstofu alþjóðamála. Nú sem aldrei fyrr þarf að huga að hreinleika og heilnæmi og íslenskur landbúnaður hefur allt sem þarf ef honum er sinnt rétt.

(Forseti (ÞórE): Forseti vill minna hv. þingmenn á að virða ræðutíma.)