149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

staða sauðfjárbænda.

[16:08]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Frú forseti. Í þessari umræðu er farið fram á að ríkið hlutist til um samninga sem fjalla um fjármögnun sauðfjárræktar og eru í raun atriði sem ætti undir eðlilegum kringumstæðum að leysa á markaði. Það er áhugavert að gengið sé út frá því að niðurtröppunin sé endurskoðuð í því tilfelli að útflutningur aukist ekki. Þetta lítur út fyrir mér eins og að hvati til að láta útflutning ekki aukast sé innifalinn í þessu.

Ég veit þó að ágætir menn hjá Bændasamtökunum hafa verið að vinna í því að reyna að auka útflutning. En við erum alltaf í þeim sömu vandræðum að meðan aðkoma ríkisins er eins og hún er í dag getur sauðfjárrækt aldrei vaxið eðlilega. Oft er bent á Nýja-Sjáland sem fór út í markaðsleið með landbúnaðarvörur sínar fyrir nokkrum árum og hefur vandinn þar mikið til lagast. Einhverjir gætu sagt að það sé eitthvað sem virki eingöngu á Nýja-Sjálandi vegna þess að þeir séu svo sérstakir en þá ætla ég að benda á að grænmetisbændur hér hafa upplifað nákvæmlega sams konar breytingu. Þegar það fór fyrst í gegn minnkaði vissulega framleiðsla á nokkrum tegundum, m.a. papriku. En nú nokkrum árum seinna er meiri framleiðsla en var áður en innflutningshöft voru afnumin og aðstæðurnar gerðar betri, verð til neytenda er lægra og vörurnar hreinlega betri.

Þetta er að vísu enn styrktur markaður en með því að treysta bændum til að gera hlutina vel sjálfir og vera með samkeppnishæfa vöru á markaði getum við bæði fengið betri vöru og losnað undan þeim vanda að pólitískir puttar séu alltaf ofan í þessum málum.