149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

staða sauðfjárbænda.

[16:10]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (Flf):

Frú forseti. Ég vil byrja mál mitt á að þakka málshefjanda fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga efni. Sauðfjárræktin stendur djúpum rótum í íslenskri þjóðarsál. Þjóðin hefur beinlínis lifað af sauðkindinni í gegnum myrkar miðaldir, kulda, eldgos og drepsóttir. Ef ekki væri fyrir sauðkindina er vafasamt að þjóðin hefði lifað af fram á þessa öld. Sauðkindin hefur þannig leitt þjóðina í gegnum myrkar aldir rétt eins og forystuféð íslenska, sem er einstakt í sinni röð í heiminum, leiddi hjörð sína og smalann rétta leið í hús og skjól og kom þeim heilum heim.

Það er mikilvægt að við framleiðum okkar matvælaafurðir sjálf. Við urðum vör við það eftir síðasta bankahrun — ég varð var við það í starfi mínu sem formaður almannavarnanefndar í Vestmannaeyjum — að farið var að telja matarbirgðir, bókstaflega, í gámum, hve mikið væri til af þessu og hinu. Það var algerlega óvíst hvað tæki við hjá okkur sem þjóð, hvort við gætum brauðfætt okkur, hvort aðrar þjóðir vildu eiga viðskipti við okkur, selja okkur afurðir sínar eða hvort við yfirleitt gætum greitt fyrir þær. Það var orðið svo alvarlegt ástand.

Ég vil nota þessa fyrri ræðu mína til að benda á að ég tel afar mikilvægt að við stuðlum að og styrkjum þá atvinnugrein sem sauðfjárbúskapur og annar landbúnaður er fyrir þjóðina hvað það varðar að við tryggjum fæðuöryggi í þessu landi sem er eyland úti í miðju Atlantshafi.