149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

staða sauðfjárbænda.

[16:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka fyrir þessa mikilvægu umræðu. Það er brýnt að við nálgumst hana af ákveðnu raunsæi og viðurkennum það sem vel er gert en reynum líka að horfast í augu við það sem við þurfum að laga. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargóð svör sem hann gaf hér áðan. Ég fagna sérstaklega ákveðnum þáttum þar sem hann leggur áherslu á jafnvægið. Við verðum að reyna að ná jafnvægi í innlendu framleiðslunni og ná tökum á þeirri offramleiðslu sem verið hefur.

Fyrir ári var alveg ljóst að vandi sauðfjárbænda var til staðar. En hann var ekkert alveg skýr. Í byrjun var sagt að 2.000 tonna umframbirgðir væru í landinu, að eitthvað þyrfti að gera. Birgðirnar urðu svo 1.000 tonn og síðan langt innan við það. Hvað segir þetta okkur? Þetta segir okkur að við þurfum að afla skilmerkilegra gagna en við þurfum líka að fara í úttekt, sem ég tel mjög brýna, á afurðastöðvakerfinu. Slík úttekt þarf um leið að verða grundvöllur viðræðna, sem hæstv. ráðherra hefur talað um, stjórnvalda, sláturleyfishafa og bænda um breytingar sem verða til raunverulegra hagsbóta fyrir bændur en líka neytendur.

Ég held að þetta sé hægt. Við verðum að hugsa um hvernig við lækkum sláturkostnað, við verðum að hugsa um hagræðingu í greininni og líka hvernig við setjum hvata inn í kerfið til að auka enn frekar bein tengsl á milli bænda og neytenda. Það er mikilvægt að við þorum að horfa á landbúnaðinn til lengri tíma. Það var merkilegt að innan við ári frá gildistöku búvörusamningsins var komið fram með þennan stórþætta vanda sauðfjárbænda. Þá er eitthvað að í því grundvallarplaggi sem búvörusamningurinn er.

Nú höfum við tækifæri til að ná samstöðu um það hvernig við ætlum að halda áfram að byggja undir landbúnaðinn, styrkja landbúnaðinn til lengri tíma, þannig að sauðfjárbændur fái lifað af greininni. En við verðum líka að þora að rífa plásturinn af og segja: Við þurfum að ná jafnvægi. Það þýðir ákveðna hagræðingu. Bændur þurfa á þeim stuðningi að halda (Forseti hringir.) um leið og við segjum hvernig stefnu við viljum sjá til lengri tíma. Ég kem að því í síðari ræðu minni.