149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

staða sauðfjárbænda.

[16:15]
Horfa

Þórarinn Ingi Pétursson (F):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda fyrir sitt innlegg og ráðherra fyrir svörin, og einnig mörgum hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls. Ég þekki málið ágætlega sem starfandi sauðfjárbóndi og ætla að koma inn á tvö atriði sem ég tel mjög brýn til þess að hægt sé að ná því framleiðslujafnvægi sem hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir kom inn á áðan. — Nú verða margir hissa þegar ég og hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir verðum sammála um landbúnað, en þannig er nú lífið.

Í fyrsta lagi er gríðarlega mikilvægt að menn horfi til þess samnings sem verið er að vinna eftir í dag og byggi á honum þær breytingar sem horfa til hagsbóta; að flýta endurskoðun til næstu áramóta og stöðva niðurtröppun á greiðslumarki um næstu áramót í ein fjögur ár.

Í öðru lagi þarf að horfa á starfsumhverfi afurðageirans, allan þann fjölda afurðastöðva sem eru vítt og breitt um landið. Við verðum að horfa til þess að hagræða í greininni. Við þurfum að horfa til framtíðar, að greinin geti tekist á við þær breytingar sem eru á því umhverfi sem landbúnaður býr við í dag. Þar á ég við breytingar á tollum og hráakjötsmálið svokallaða. Ég tel að ef við náum fram þeirri hagræðingu sem blasir við okkur í þessum geira náum við vopnum okkar. En það er ekki nóg að hræra í (Forseti hringir.) stuðningi ríkisins heldur þurfum við að horfa alla leið, og þá þurfum við einnig að velta fyrir okkur samkeppnislögum í þessu landi.