149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

staða sauðfjárbænda.

[16:25]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegur forseti. Þakkir til allra sem þakkir eiga skildar tengdum þessari umræðu. Ég ætla að leyfa mér að vera tiltölulega bjartsýnn fyrir hönd íslensks landbúnaðar. Íslenskur landbúnaður og sauðfjárrækt nýtur mikillar sérstöðu. Við erum með litla notkun sýklalyfja sem er hverfandi lítil í sauðfjárrækt. Við erum með fáa búfjársjúkdóma. Má nefna sem dæmi að 120 mikilvægir sjúkdómar eru skráningarskyldir á alþjóðavísu, af þeim eru 19 hér á landi. Það gerir vissulega stofninn okkar viðkvæman fyrir þessum sjúkdómum hvað við skulum hafa í huga þegar verið er að ræða innflutning.

Smæð landsins gerir það líka að verkum að við eigum að geta haft fullkomið gagnsæi í framleiðslu. Við vitum hvaðan íslenskar landbúnaðarafurðir koma. Við styðjum vissulega eins og önnur ríki landbúnað. Stuðningurinn hér er minni en t.d. í Sviss og Noregi þegar horft er til hlutfalls af útgjöldum ríkissjóðs, landa sem ekki er óeðlilegt að bera Ísland saman við, eru tiltölulega harðbýl lönd. Ég held að landbúnaður hafi mikil tækifæri þegar kemur að loftslagsmálum. Það eru tækifæri að tengja stuðning betur við umhverfis- og loftslagsmál. Það hefur ýmislegt áunnist í þessu. Það hefur náðst góður árangur varðandi innflutning áburðar, við notum þriðjungi minna af áburði í ýmissi framleiðslu þannig að það eru mörg góð teikn á lofti.

Það þarf hins vegar að aðlaga stuðninginn að breyttum veruleika. Það þarf að horfast í augu við hvernig staðan er. Ég hef ekki heyrt annað en bændur séu fullir vilja til þess. Nú heyri ég ráðherra lýsa yfir sínum vilja líka. Ef viljinn er fyrir hendi er ég bjartsýnn á það að við getum staðið vörð um og farið í sókn þegar kemur að sauðfjárrækt og íslenskum landbúnaði almennt. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)