149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

áhættumat um innflutning dýra.

118. mál
[16:40]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Frú forseti. Ég beini hér fyrirspurn til hæstv. ráðherra varðandi áhættumat sem tengist innflutningi dýra. Það er alveg ljóst að mikil óánægja er með núverandi fyrirkomulag og hefur það verið gagnrýnt harðlega, bæði af því að það tímafrekt, kostnaðarsamt en ekki síst af því að það er mikið álag á gæludýrin sjálf, sem hefur aukist verulega á síðustu árum að flytja inn til landsins. Innflutningur hunda jókst t.d. mjög árið 2016. Fluttir voru inn 217 hundar af 67 tegundum frá 33 löndum og kettir voru 49 talsins.

En það skiptir mestu máli að við horfum á gæludýrin sjálf, mennina og síðan hvaða þróun hefur átt sér stað í allri tækni, svo ég tali nú ekki um dýralækningar. Það er að mínu mati löngu tímabært að endurnýja áhættumatið, fyrir utan það sem við höfum verið að benda á, að það eru náttúrlega margir gæludýraeigendur á þeirri skoðun að það fyrirkomulag sem núna er við lýði sé alger tímaskekkja. Auðvitað er brýnt og mikilvægt að viðhalda þeirri góðu stöðu sem við Íslendingar höfum haft með tilliti til dýrasjúkdóma. En það þýðir ekki að við getum ekki horft raunsætt á málið og horfst í augu við það sem gerst hefur varðandi þróun innan dýralækninga, eftirlit og fleira.

Hvað gera nágrannaþjóðir okkar? Lengi vel voru mjög strangar reglur á Bretlandseyjum; sex mánaða einangrun líkt og við vorum með á árum áður. Þær kröfur voru síðan afnumdar árið 2000 og var búið til nýtt fyrirkomulag 2012. Nú er fallið frá kröfum um einangrun gæludýra í Bretlandi og má ferðast þangað með hunda að uppfylltri kröfu um 21 dags bið eftir bólusetningu.

Evrópusambandið hefur líka verið með þessi mál í þróun, en í allt aðra veru en við Íslendingar. Það er svolítið mikilvægt að líta til Ástralíu og Nýja-Sjálands, sem eru eyríki eins og Ísland. Við innflutning dýra til Ástralíu eru dýr flokkuð eftir því frá hvaða landi þau eru flutt. Ef dýrið kemur frá Nýja-Sjálandi, Norfolk-eyju eða Kókoseyjum þarf það ekki að fara í einangrun. Frá öllum öðrum löndum þarf dýrið að sæta, ekki fjögurra vikna einangrun, ekki sex mánaða, heldur tíu daga einangrun, þó með mismunandi ströngum undirbúningsskilyrðum eftir því hversu algengt hundaæði er í viðkomandi landi sem dýrið kemur frá. Á Nýja-Sjálandi eru reglurnar mjög svipaðar og í Ástralíu. Þar eru hugsanlega undantekningar frá dýrum sem koma beint frá Ástralíu, en að öðru leyti er einangrunin tíu dagar.

Ég beini því til hæstv. ráðherra að flýta áhættumati eða reyna að ýta undir að áhættumatið, sem ég veit að er í gangi í ráðuneytinu og ég kom að og setti (Forseti hringir.) af stað á sínum tíma, verði klárað og vonast til að heyra svör við þeim spurningum sem ég hef sett fram.

Hvernig miðar vinnu við nýtt áhættumat? Hvernig hyggst ráðherra innleiða svokallaðan gæludýrapassa? (Forseti hringir.) Telur ráðherra að líta eigi til annarra landa hvað varðar fyrirmyndir um nýjar reglur um innflutning gæludýra? (Forseti hringir.) Það er brýnt að það verði skoðað og tekið föstum tökum.

(Forseti (GBr): Forseti óskar eftir því að hv. þingmenn haldi tímamörkin.)