149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

áhættumat um innflutning dýra.

118. mál
[16:44]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi til mín þremur spurningum. Í fyrsta lagi hvernig miðaði vinnu við áhættumatið vegna innflutnings á hundum og köttum. Því er til að svara að hún stendur yfir. Verkið er unnið af dr. Preben Willeberg sem er fyrrverandi yfirdýralæknir Danmerkur. Þessi vinna fór í gang seint á síðasta ári og þegar hún hófst stóðu vonir til að skýrsla um þessi efni yrði tilbúin í apríl núna á þessu ári. Við vinnuna hefur hins vegar komið í ljós að verkið er töluvert umfangsmeira en upphaflega var gert ráð fyrir. Íslenskir sérfræðingar hafa lagt fram gögn og aðstoðað dr. Willeberg í sinni vinnu. Síðasti fundur um þessi efni var haldinn um miðjan september. Ég hef lagt áherslu á að þessu verki verði lokið svo fljótt sem auðið er. Mér skilst að nú standi vonir manna til þess að skýrsla um þessi efni liggi fyrir á árinu og eigi síðar en í árslok.

Við vinnuna er lögð sérstök áhersla á að gera breytingar vegna hjálparhunda, svo sem blindrahunda. Það er ríkur vilji til að koma til móts við þá sem njóta aðstoðar slíkra hunda, en mikilvægt er að allra mati sem um þessi mál véla, sérfræðinga, að vanda til verka og tryggja eftir fremsta megni að hingað berist ekki búfjársjúkdómar eða sjúkdómar með lifandi dýrum sem geta borist í okkar viðkvæmu búfjárstofna.

Vonir standa til að hægt verði að gera viðeigandi breytingar, að koma betur til móts við þá sem njóta aðstoðar hjálparhunda, þegar áhættumatið liggur fyrir.

Í öðru lagi er spurt um gæludýrapassann. Vegabréf fyrir gæludýr eru skilríki sem staðfesta að gæludýrin hafi fengið allar nauðsynlegar bólusetningar til að hægt sé að ferðast með þau innan landa Evrópusambandsins. Innleiðing á þessu fyrirkomulagi hér fæli í sér að ekki þyrfti að einangra gæludýr sem yrðu flutt til Íslands, svo framarlega sem þeim fylgdu nauðsynleg heilbrigðis- og upprunavottorð. Niðurstöðu áhættumatsins sem er í vinnslu á að nýta sem grunn til frekari skoðunar á þessum svokölluðu gæludýravegabréfum eftir því sem mér skilst.

Í þriðja lagi er spurt hvort líta eigi til annarra landa þar sem dýr sæta tíu daga einangrun með mismunandi ströngum skilyrðum eftir því hvaðan þau koma. Þá er þess fyrst að geta að Ísland hefur verið í fararbroddi þeirra landa sem sett hafa strangar reglur um innflutning dýra til að hindra eins og mögulegt er að til landsins berist skæðir dýrasjúkdómar. Við vinnuna sem hér er gerð að umtalsefni, þ.e. áhættumatið, verður m.a. litið til framkvæmda og reynslu annarra ríkja og þeirra lausna sem þau hafa gripið til í vörnum gegn dýrasjúkdómum. Það á að kanna hvort unnt sé að stytta sóttkvíartíma í einhverjum tilfellum, m.a. með hliðsjón af nýjum rannsóknaraðferðum sem hafa verið þróaðar. Að því leyti til er eðlilegt að líta m.a. til annarra landa, svo sem Ástralíu og Nýja-Sjálands eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi í sinni ræðu og sínum fyrirspurnum.

Ég vil þó undirstrika að meðan við bíðum niðurstöðu áhættumatsins er ekki tímabært að úttala sig um málið dýpra en hér er gert og ég vænti þess að fyrirspyrjandi sýni því skilning. Um leið og vinnunni lýkur er sjálfsagt mál að taka málið upp aftur og ræða það frekar og þær mögulegu aðgerðir sem gætu verið fram undan í kjölfarið á þeirri skýrslu sem unnin verður um þetta áhættumat sem hér hefur verið gert að umtalsefni.