149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

áhættumat um innflutning dýra.

118. mál
[16:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og sýni því skilning að erfitt sé að fullsvara þessari fyrirspurn fyrr en áhættumatið liggur fyrir. En það kemur mér samt á óvart hversu mjög hefur dregist að fá niðurstöðuna í áhættumati, vinnu sem sett var af stað á síðasta ári. En gott og vel. Ég vona að hæstv. ráðherra haldi fólki við efnið.

Það er stundum eins og fólk komi hingað og ímyndi sér að ekki hafi orðið nein framþróun í dýralækningum, í lyfjum og slíku. Við erum ekki að tala um innflutning á hráu kjöti, við erum að tala um innflutning á dýrum þar sem orðið hafa stórstígar framfarir í hvers konar bólusetningum, hvað þá öðrum vörnum. Þeir sjúkdómar sem menn hafa einna helst verið hræddir við eru ýmist orðnir hluti af staðalbólusetningum hunda og katta í öðrum löndum eða það er afar auðvelt að greina þá sjúkdóma með prófunum þegar til landsins er komið eða þá fyrir komuna. Það er hægt að breyta þessu fyrirkomulagi í þágu dýranna okkar, í þágu dýraverndar og ekki síður í þágu okkar mannfólksins sem viljum hafa dýrin okkar hjá okkur sama hvar við búum, að þau fylgi okkur.

Ekki var tekin nein vísindaleg ákvörðun varðandi þá niðurstöðu að fara með einangrunina úr sex mánuðum í þrjá og úr þremur í fjóra. Ekkert lá því til grundvallar á sínum tíma annað en einföld pólitísk ákvörðun.

Ég vil líka draga það fram að það er mikill biðlisti eftir plássi í einangrunarstöðinni í Höfnum, sem er eina starfrækta einangrunarstöðin á landinu. Það segir náttúrlega mjög margt. Hvernig ætlum við að bregðast við því? Það er kominn tími til að við horfumst í augu við að veruleikinn er breyttur. Orðið hefur framþróun í vísindum, hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, og ekki er hægt lengur að beita fyrir sig gamaldags einangrunarsjónarmiðum þegar um er að ræða innflutning á gæludýrunum okkar. Við getum endurskoðað reglurnar án þess að verið sé að ógna öryggi dýra, manna eða umhverfis. Það er alveg á hreinu.