149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

starfsemi Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði.

149. mál
[16:58]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina og veit að hann er, eins og sá sem hér stendur, mikill áhugamaður um vöxt og viðgang landsbyggðarinnar. Á því held ég að sé enginn mikill munur þó svo að hv. þingmaður hafi fært sig um set í kjördæmi. Það er annað efni. (Gripið fram í.) — Landsbyggðarkjördæmagreyin, já.

Ég vil fyrst segja að ég sem ráðherra hef ekki tekið neina ákvörðun til breytinga á þessu efni, svo er ekki. Ég hlýt hins vegar að vekja athygli hv. þingmanns á því að um starfsemi Hafrannsóknastofnunar gilda lög nr. 112/2015, sem bera yfirskriftina Um Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. þeirra laga ber forstjóri ábyrgð á stjórn, rekstri og starfsskipulagi stofnunarinnar gagnvart ráðherra og gerir rekstraráætlanir fyrir hana. Forstjóri ræður einnig annað starfsfólk.

Hafrannsóknastofnun var skrifað bréf þann 12. október 2017 og óskaði ráðuneytið eftir umsögn stofnunarinnar um þá ákvörðun sem hér er til umræðu. Ráðuneytinu hefur borist svar frá Hafrannsóknastofnun. Í því svari kemur m.a. fram að Hafrannsóknastofnun hafi fagnað vilja ráðherra til að efla starfsstöðina á Ísafirði. Hins vegar sé ekki heppilegt að færa stöðu sviðsstjóra fiskeldis og fiskræktar á Ísafjörð af þeim sökum að á Íslandi sé og muni verða fjölbreytt fiskeldi um allt land. Sjókvíaeldi á laxi sé einungis einn hluti fiskeldisins á Íslandi sem sé allt í þróun og taki nú miklum breytingum. Jafnframt kemur fram að fiskeldis- og fiskræktarsvið hafi verið búið til í nýrri stofnun, Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna, sem varð til við sameiningu gömlu Hafrannsóknastofnunar og Veiðimálastofnunar. Sú stofnun tók til starfa 1. júlí 2016. Áður hafði ekki verið til slíkt svið og hafi hið nýja svið verið fjármagnað af stofnuninni með breyttri forgangsröðun. Í bréfinu kemur fram að ekkert nýtt fé hafi komið vegna þessara breytinga og að aðrir starfsmenn sviðsins séu í Reykjavík og í Grindavík. Þá séu mikilvæg tímamót í íslensku fiskeldi þar sem uppbygging sé hafin vegna sjókvíaeldis, auk þess sem landeldi á laxi og bleikju sé að vaxa. Mikilvægt sé að sviðsstjórnin sé nærri starfsmönnum sínum og yfirstjórn stofnunarinnar vegna mótunar og uppbyggingar sviðsins og um leið vegna vinnu við stefnumótun fyrir fiskeldi í landinu og uppbyggingu rannsókna á greininni. Staðsetning á Ísafirði er ekki því sérlega heppileg fyrir þetta starf. Í þessu sambandi sé einnig rétt að benda á að forstjóri ber ábyrgð á stjórn, rekstri og starfsskipulagi stofnunarinnar gagnvart ráðherra og gerir rekstraráætlun fyrir hana.

Til viðbótar nefni ég að forstjóri ræður annað starfsfólk, eins og ég sagði áðan.

Þetta eru svör stofnunarinnar sem hefur fullt sjálfstæði í störfum sínum að lögum. Ráðherra hlutast ekki til um starfsmannahald né aðrar þvílíkar aðgerðir. Ég undirstrika það í svari mínu að ég hef ekki tekið neina ákvörðun sem áður var tekin, en forstjórinn ber að lögum ábyrgð á starfi stofnunar sinnar.

Ég hef rætt við forstjóra Hafrannsóknastofnunar um að ég telji mjög mikilvægt að fiskeldishluti stofnunarinnar verði treystur á Ísafirði. Ég tel þann stað heppilegastan og deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að til þess að byggja upp þátt ríkisins varðandi fiskeldið sé heppilegt að það skuli gert þar. Ég vil nefna það hér að Hafrannsóknastofnun hefur undanfarið aukið umsvif sín á Ísafirði. Þar hefur fjölgað úr fimm í sjö stöður.

Ég veit ekki hvort og hvernig okkur mun ganga, eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni, að hlaða öðrum störfum utan á starfið á Ísafirði. Það veltur allt á því hvaða fjárhag við sköpum Hafrannsóknastofnun. Ég nefni það undir lokin að það eru allnokkrir meinbugir á varðandi fjármögnun stofnunarinnar vegna þess að tíðkast hefur mörg undanfarin ár að fjármagna hana að stórum hluta út úr AVS-sjóði.

Það er staðan og svarið við þeirri spurningu sem hv. þingmaður bar fram.