149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

starfsemi Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði.

149. mál
[17:03]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir svör hans hér, en eins ánægður og ég var með hann í liðinni viku er ég ekki eins ánægður með svör hans núna. Ég get ekki skilið svörin öðruvísi en að búið sé að taka ákvörðun um að þetta verði ekki gert með þeim hætti sem ákvörðun var tekin um árið 2016, þ.e. að þessi staða verði ekki staðsett á Ísafirði eins og þá var tekin ákvörðun um, í ljósi þess að stofnunin sjálf vill það ekki. (Gripið fram í: Forstjórinn.) Forstjórinn.

Hægt er að minnast á í þessu samhengi að á kjörtímabilunum 1999–2007 voru 200 störf flutt úr undirstofnunum og fyrirtækjum samgönguráðuneytisins út á land. Það væri áhugavert að vita hversu mörg þeirra eru enn úti á landi í dag. Ég teldi gott ef þau væru tíu. (Forseti hringir.) En tilhneigingin er auðvitað, og hana þekkjum við, að þeir sem stjórna stofnunum (Forseti hringir.) ríkisins segja fyrst upp starfsmönnunum sem eru fjærstir þeim. Þeir vilja hafa stjórnendur og millistjórnendur í næsta kontór við sig. Það er (Forseti hringir.) pólitísk ákvörðun að breyta því og hún verður ekki tekin af forstjóra Hafró, heldur af sjávarútvegsráðherra í þessu máli.