149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

starfsemi Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði.

149. mál
[17:05]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Ég undirstrika sjálfstæði stofnana, sérstaklega rannsóknastofnana og grundvallarstofnana eins og Hafrannsóknastofnun er fyrir samfélag okkar. Það er mjög hættulegt ef sjávarútvegsráðherra hverju sinni ætlar að grípa inn í stefnu og rekstur stofnunarinnar. Að því sögðu vil ég undirstrika þá skoðun mína að það ber að styrkja stöðu fiskeldismála, hvort sem er hjá rannsóknarstofnun eins og Hafró eða í gegnum aðrar háskólastofnanir. Eins ber að efla fiskeldið á Vestfjörðum, ekki síst á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem það er mest.

Það sem skiptir mestu máli fyrir Vestfirði er að þessi ríkisstjórn reyni að sjá hlutina í einhverju heildarsamhengi, og beini ég þá einkum sjónum að samgönguáætlun. Nú eru Dýrafjarðargöngin að klárast, en það er til lítils að klára Dýrafjarðargöngin þegar vegurinn um Dynjandisheiði er ekki kominn. Það skiptir máli í stóra samhenginu hvernig við ætlum að efla Vestfirði og efla þjónustuna og utanumhaldið, m.a. eftirlit með atvinnugreinum, hvort sem er á sviði fiskeldismála eða sjávarútvegs.