149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

starfsemi Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði.

149. mál
[17:07]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Gunnar Bragi Sveinsson) (M):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að það eru gríðarleg vonbrigði að heyra tóninn í ræðu hæstv. ráðherra. Þannig er með þá ágætu stofnun að yfir henni er ekki eiginleg stjórn, hún heyrir undir ráðherrann. Ráðherra mótar stefnuna í þeim málaflokkum sem undir hann heyra. Ráðherra ákvað að byggja upp fiskeldisdeildina á Ísafirði. Það var pólitísk ákvörðun að gera það m.a. í samræmi við skýrslu sem unnin var um hvernig styrkja mætti Vestfirði. Einhver embættismaður, alveg sama hvað hann heitir, getur ekki tekið einhverja aðra ákvörðun. Honum ber bara að hlýða því sem fyrirskipað er. Það er ekki eins og verið sé að offra Hafrannsóknastofnun með þessu. Talað er um að byggja upp deild sem er vaxandi, tiltölulega ný á þeim stað þar sem mest starfsemi í laxeldi fer fram í dag.

Auðvitað er hægt að segja það um öll störf að þau eigi betur heima í Reykjavík af því að það sé miklu nær öllu og starfsemi sé úti um allt land. Það er sagt um hvert einasta starf hjá ríkinu. Eru það rökin fyrir því að ekki eigi að byggja upp úti á landi að það séu mögulega fleiri störf sem verði til seinna einhvers staðar annars staðar? Það er algjörlega fáránlegt. Ég ætla ekki að trúa því að sá ráðherra sem hér situr ætli að láta embættismennina segja sér fyrir verkum í þessu máli. Ætlar ráðherrann virkilega að sitja hjá og láta þetta sigla fram hjá sér og segja: Ég hef ekkert um þetta að segja? Af því að hann hefur allt um þetta að segja. Ráðherrann hefur allt um það að segja hvernig þessi starfsemi fer fram.

Ef það væri stjórn í þessu fyrirtæki, ef þetta væri Landsnet, eitthvað slíkt, svo við tökum dæmi, myndum við fara með slíkt fyrir þá stjórn. En ráðherrann ræður þessu.

Ég ætla að vona, ekki síst fyrir hönd Vestfirðinga sem beðið hafa eftir þessu og kallað eftir því að ráðherra láti nú kné fylgja kviði og sjái til þess að sú ákvörðun sem var tekin og hann segist ekki hafa snúið við, þ.e. að þessi starfsemi verði staðsett á Ísafirði á árinu 2018, verði gerð að veruleika.