149. löggjafarþing — 19. fundur,  15. okt. 2018.

starfsemi Hafrannsóknastofnunar á Ísafirði.

149. mál
[17:09]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Mér þykir leitt að fyrrverandi ráðherra hafi ekki tekist að beygja forstjórann betur en hann segist hafa getað gert. Það er einhver ástæða fyrir því, virðulegi forseti, að forstöðumenn ríkisstofnana hafa að lögum ákveðið hlutverk. Ég veit ekki hvað hv. þingmenn ætla að gera ef einstakir ráðherra eiga að fara að hlutast til um daglegan rekstur stofnana og fara að standa í mannaráðningum þar inni. Ef við ætlum að taka þetta mál (Gripið fram í.) munu menn verða krafðir svara víðar en bara í þessu efni. Vissulega skulum við taka þá umræðu, en ég kalla þá eftir því hvernig menn ætla að fara með aðra sambærilega hluti.

Ef við ætlum að vera samkvæm sjálfum okkur í þessu efni þarf einfaldlega að breyta lögum. (GBS: Þetta er allt í lögum.) Þetta er bundið í lög, virðulegi forseti. Eins og ég gat um áðan varðandi lög um Hafró, samkvæmt 2. mgr. 3. gr., þá ber forstjóri ábyrgð á stjórn og rekstri stofnunarinnar eins og hann tiltekur í svarinu sem ég fékk frá honum. Ætla menn virkilega að halda því fram að forstjórinn hafi ekki umboð til þess að ráða og reka starfsfólk? (Gripið fram í.) Hann hefur allt umboð til þess. Áherslur okkar geta legið í því að byggja upp eftirlit með fiskeldi. (GBS: Pólitísk ákvörðun og þor.)

Stundum er mjög auðvelt, virðulegi forseti, eins og hér er kallað fram í úr sal að segja að það skorti bara pólitískt hugrekki og þor. Hvers vegna í ósköpunum dettur þá sumum ráðherrum í hug að grípa til aðgerða sem ekki standast lög og lenda síðan í bölvuðum málarekstri og veseni með framkvæmd slíkra aðgerða? Hvernig í ósköpunum stendur á því að fyrrverandi ráðherra fullnustaði ekki málið? Einhver fyrirstaða hefur verið þar. (Gripið fram í.) Ég vil meina að það séu lögin sem forstjórinn ber fyrir sig sem valda því að þessi annars ágæti vilji hæstv. fyrrverandi ráðherra náði ekki að fullnustast. Það er ekkert flóknara mál en svo. (Forseti hringir.) Ráðherrann verður bara að beygja sig undir að hann hafði ekki afl til þess að koma vilja sínum fram. (GBS: Þvæla.)