149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Ingibjörg Þórðardóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að ræða samgönguáætlun. Í henni er margt gott og þar eru fjölmörg brýn verkefni sett á dagskrá. Öllum samgöngubótum ber að fagna hvar sem er á landinu.

Þegar gerður er samanburður á milli svæða, nú eða kjördæma, er misræmið hins vegar hrópandi. Austfirðingar eru sannarlega ekki kátir. Framlag til Austurlands, bæði á fyrsta og öðru tímabili, er áberandi lítið. Austfirðingum finnst þeir skildir eftir og brýn verkefni eru sett aftarlega í forgangsröðinni.

Ef við berum áætluð útgjöld til Austurlands saman við Suðurland eru tölurnar sláandi. Á fyrsta tímabili fær suðursvæði 1 rúma 8 milljarða króna og suðursvæði 2 um 11,5 milljarða. Það eru tæpir 20 milljarðar. Á sama tímabili fær austursvæðið innan við 4,4 milljarða. Ef við tökum Hornafjarðarsvæðið út fyrir sviga, enda tilheyrir það svæði Suðurkjördæmis, fær Austurland 1,36 milljarða.

Ef rýnt er í þær framkvæmdir á Austurlandi sem ráðherra setur í forgang kemur verulega á óvart að ekkert virðist vera hlustað á vilja Austfirðinga sjálfra. Á síðasta aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Austurlandi voru öll sveitarfélög á Austurlandi sammála um þau verkefni sem setja ætti í forgang, það væru göng til Seyðisfjarðar og vegurinn yfir Öxi.

Ég reikna með því að þingmenn þekki hve einangraðir Seyðfirðingar eru oft á vetrum og þekki þá miklu umferð sem fer nú um erfiðan veg yfir Öxi. Hvorugt þessara verkefna sést á fimm ára áætlun hæstv. samgönguráðherra.

Við Austfirðingar höfum stundum fengið að heyra að við séum ósamstiga og að við getum ekki komið okkur saman um hvaða verkefni í fjórðungnum eigi að vera í forgangi. Nú hefur sveitarstjórnarfólk lagt vinnu í að forgangsraða verkefnum. Það er mikilvægt að hlustað sé á það fólk. Ég skora á hæstv. ráðherra og þingheim allan að gera breytingar á samgönguáætlun svo hægt verði að sjá bæði veg yfir Öxi og göng til Seyðisfjarðar á fimm ára áætlun.