149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Jóhanna Vigdís Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mannauðsvísitala Alþjóðabankans er sett saman til að hvetja þjóðir heims til að fjárfesta meira í því sem skilar raunverulegum hagvexti í framtíðinni, menntun og heilsu einstaklinga, svo að þeir geti sinnt störfum framtíðarinnar.

Samkvæmt mannauðsvísitölunni er Ísland í neðsta sæti á Norðurlöndunum og það er menntunin sem dregur okkur þangað. Ísland er líka í neðsta sæti meðal Norðurlandanna þegar kemur að fjárframlögum til háskólastigsins. Mannauður Íslands mun því fara á mis við rúmlega fjórðung af mögulegum ævitekjum sínum. Hagvöxtur Íslands framtíðarinnar verður töluvert minni en hann gæti orðið og lífsgæði Íslendinga minni.

Í stjórnarsáttmála hæstv. ríkisstjórnar segir að fjárframlög til háskólanna eigi að ná meðaltali OECD-ríkjanna árið 2020 og Norðurlandanna árið 2025. Fjármálaáætlun þeirrar sömu hæstv. ríkisstjórnar endurspeglar hins vegar ekki þau orð. Til að ná meðaltali OECD-ríkjanna fyrir árið 2020 þyrfti að auka útgjöld um 3 milljarða til háskólastigsins á næstu tveimur árum.

Það er sama hvaða reikningstrix og PR-brellur eru dregnar upp úr hatti hæstv. ríkisstjórnar, það er bara ekkert verið að gera. Það blasir nefnilega við í frumvarpi til fjárlaga 2019 að ríkisstjórnin hyggst ekki einu sinni ná eigin markmiðum sem sett eru fram í fjármálaáætlun sömu hæstv. ríkisstjórnar, sem þó voru ekki sérstaklega háleit.

Í frumvarpi til fjárlaga 2019 er raunhækkun á rekstrarframlögum háskólanna 152,6 millj. kr. Það er hálft prósent. Það er hin raunverulega upphæð að frátöldum almennum launa- og verðlagsbreytingum. Fjármagn á hvern nemanda mun ekki aukast samkvæmt fjárlagafrumvarpinu, ekki nema með fækkun nemenda á háskólastigi.

Er það virkilega markmið hæstv. ríkisstjórnar að fækka nemendum á háskólastigi á Íslandi?