149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp í ræðustól Alþingis til að vekja athygli á grafalvarlegri stöðu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Íbúar hafa búið við falskt öryggi um langt skeið og er nú mál að linni. Heimilislæknakerfið á Suðurnesjum er einfaldlega ekki til og sérfræðiþjónusta takmörkuð. Í mati embættis landlæknis á gæðum og öryggi HSS, sem kom út 2017, er dregin upp dökk mynd af starfseminni.

Í henni segir, með leyfi forseta:

„Mönnun lækna og hjúkrunarfræðinga er ónóg og má lítið út af bera til að öryggi sé hugsanlega ógnað vegna ófullnægjandi mönnunar. Heilsugæslan er augljóslega undirmönnuð af fagfólki, sérstaklega er ástandið slæmt í geðteymi og meðferðarteymi barna.“

Þetta var staðan 2017. Nú er ég hræddur um að hún sé enn verri. Starfsfólk er örþreytt og verulegur kostnaður fellur til vegna veikinda. Reyndir hjúkrunarfræðingar segja upp störfum, enda er vinnuumhverfið og álagið þeim ofviða.

Samkvæmt upplýsingum frá stofnuninni hefur íbúum á starfssvæði hennar fjölgað um 60% frá 2005 og um 18% bara á síðustu tveimur árum. Þess má geta að hér er ótalin gríðarleg fjölgun ferðamanna en HSS þjónustar einnig alþjóðaflugvöllinn.

Maður skyldi ætla að óhjákvæmilega væri verið að auka í þegar kemur að fjárveitingum til HSS en svo er ekki. Samkvæmt því fjárlagafrumvarpi sem Alþingi hefur nú til meðferðar er raunaukning fjárveitingar til HSS minnst og heildarfjárveiting á hvern íbúa einnig lægst. Ég er furðu lostinn yfir þeirri staðreynd.

Ég hvet heilbrigðisráðherra og þingheim allan til þess að gyrða sig í brók og tryggja viðunandi heilbrigðisþjónustu á Suðurnesjum í eitt skipti fyrir öll.