149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það var algjörlega sláandi að fylgjast með þeim Sigurbjörgu og Þóru Björgu í þættinum Lof mér að lifa í ríkissjónvarpinu. Kafað var ofan í sögurnar og atburðina á bak við myndina Lof mér að falla og þar blasir við vandi fíkilsins svart á hvítu. Frá því að kvikmyndin Lof mér að falla var frumsýnd fyrir tæpum þremur vikum og fram að því að við sáum heimildarmyndina Lof mér að lifa hafa verið 54 útköll vegna ofneyslu. Við erum svo sem með ágætt kerfi sem byggist á því að við treystum stofnunum á borð við Vog til að sinna þeim sem þurfa að komast í meðferð við fíknivanda. Gott og vel, en það er ekki nóg. Af hverju er ekki gert betur og ráðist á þá biðlista sem allt að því blöstu við okkur í beinni útsendingu? Það er þyngra en tárum tekur að fylgjast með manneskjum sem vilja fá hjálp og vilja hætta að neyta eiturlyfja rekast á veggi í kerfinu aftur og aftur og aftur. Þeim er vísað fram og til baka á nýja staði.

Það vantar alla eftirfylgni. Afvötnun er eitt skref. Það að lifa lífinu eftir afvötnunina er allt annað. Þegar manneskjur eru langt leiddar í sjúkdómum eru flestar þeirra peningalausar, heimilislausar, vinirnir lifa í nákvæmlega sama heimi, baklandið er brotið og fjölskyldan búin að gefast upp á þeim áður en þær ná bata. Það vantar því mikið upp á stoðir sem taka við einstaklingum sem eru brotnir og þurfa hjálp við að lifa lífinu eftir þá rússíbanareið sem fíknin getur verið.

Kerfið þarf því að fara að viðurkenna fíkn sem skelfilegan sjúkdóm, grafalvarlegan sjúkdóm, og koma fram við hann sem slíkan. Þess vegna segi ég að við verðum að gera betur. Þetta er ekki stjórnar- eða stjórnarandstöðumál heldur samfélagsmál. Við eigum að styðja stjórnvöld hverju sinni í því að gera betur því að við þurfum að taka utan um vandann, við þurfum að ráðast (Forseti hringir.) að rótum hans og hætta að plástra kerfi sem veldur augljóslega ekki verkefninu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)