149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Fyrir viku síðan veitti Alþingi sjávarútvegsráðherra bráðabirgðaleyfi til þess að veita starfsleyfi til fiskeldis fram hjá öllum venjulegum ferlum. Í þeirri umræðu kom fram að í raun og veru væri verið að veita sjávarútvegsráðherra sambærilega heimild og umhverfisráðherra hefði. Þá fór ég að klóra mér aðeins í hausnum og fór að skoða heimild umhverfisráðherra, hvaðan hún kæmi.

Ég sé ekki betur en að sú heimild hafi komið inn með breytingartillögu frá umhverfis- og samgöngunefnd í maí á sl. ári án þess að nokkur útskýring væri á þeirri breytingartillögu, á því heimildarákvæði. Ekkert er fjallað um það í nefndarálitinu og ekkert í framsöguræðunni. Það er enginn rammi utan um þessa heimild ráðherra, vald hans til að fara með þessa undanþáguheimild frá t.d. Árósasamningnum.

Takmörkun á valdi ráðherra er í rauninni á okkar borði hvað lagasetningu varðar. Við setjum framkvæmdarvaldinu lög, ákveðnar og skýrar reglur um það hvar þeirra mörk liggi, hvar þeirra valdheimildir liggi. Þegar svona tillögur koma frá Alþingi en ekki frá frumvarpinu um breytingar á lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir verður maður að spyrja af hverju svona breytingartillaga geti komið fram án útskýringa þegar við hér erum persónulega ábyrg gagnvart framkvæmdarvaldinu og eftirliti með því. Það starfar í okkar umboði og undir okkar eftirliti. Þegar við setjum framkvæmdarvaldinu ekki ramma um þessar mjög svo opnu heimildir verðum við að spyrja okkur mjög stórra spurninga. Við verðum að kalla eftir umfjöllun sérfróðra aðila um þetta mál.