149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Þann 10. október sl. ályktaði stjórn Öryrkjabandalagsins um starfsgetumat. Það væri gaman að vita hversu mörg okkar í þessum sal hafa kynnt sér þá ályktun. Það er í stuttu máli þetta sem hún felur í sér: Öryrkjabandalag Íslands er alfarið á móti starfsgetumati í því formi sem það er í í dag. Hvers vegna? Vegna þess að það byggist í raun ekki á neinu öðru en að skapa óöryggi, ótta og vanlíðan hjá öryrkjum almennt.

Hvað á það t.d. að þýða að bjóða fólki upp á að fara í starfsgetumat — hver segir hvað það er, 25% starfsgeta, 50% starfsgeta? Farðu út að vinna, þú ferð á hálfar bætur, við ætlum að reyna að koma því þannig fyrir að þú fáir hálfar bætur því að eins og staðan er í dag er bara styrkur upp á 30.000–40.000 kr. ef fólk er metið til 50% starfsgetu.

En hvar fær maður þá vinnu, hæstv. forseti? Hvar skyldi vinnuna vera að hafa? Það er eiginlega hvergi. Hjá Vinnumálastofnun eru nú yfir 400 umsóknir öryrkja sem óska eftir því að komast út á vinnumarkað í hlutastarf. En það er bara ekki í boði.

Það er ekki nóg að búa til kerfi og ýta til hliðar kerfi sem Öryrkjabandalagið segir að það sé mun sáttara við, það sé öruggara og betra og tryggara, sérstaklega ef tekið yrði utan um það kerfi sem við búum við í dag og það tryggt betur, yrði fært nær þörfum öryrkja og gert skilvirkara og án allra þessara skerðinga.

Það sem við höfum haft á borði hjá okkur núna er t.d. króna á móti krónu skerðing og það virðist vera þverpólitísk samstaða um að afnema hana. Auðvitað bíður maður spenntur eftir að sjá hvað úr því verður þegar upp er staðið.

Ég segi alltaf að bjartsýni og bros bjargi deginum og það er þess vegna sem ég stend hér. Ég hef trú á því að í þessum sal sé samansafn af góðu fólki sem vill sannarlega taka saman höndum og rétta okkar minnstu bræðrum og systrum hjálparhönd til að gera þeim lífið bærilegra í okkar fallega landi.