149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Um helgina var tekin fyrsta skóflustunga, reyndar voru þær nokkrar, að nýjum meðferðarkjarna Landspítalans. Þetta eru mikilvæg tímamót og fagnaðarefni að þessum áfanga hafi verið náð. En það er um leið áminning fyrir okkur um að við erum að fara hér af stað í eina stærstu opinberu framkvæmd seinni tíma með kostnaðaráætlun upp á um 55–60 milljarða kr. Vert er að hafa í huga að að meðaltali fara opinberar framkvæmdir um 70% fram úr kostnaðaráætlun. Verði það raunin í þessu mikilvæga verkefni mun meðferðarkjarninn ekki kosta 60 milljarða heldur 100 milljarða, eða 40 milljörðum meira en við gerum ráð fyrir hér í dag.

Ég ætla að vona að eftirlit með þeirri framkvæmd verði betra en raunin hefur verið í opinberum framkvæmdum til þessa. Ég vona líka að framkvæmdin verði betri og okkur öllum til heilla þannig að við þurfum ekki að standa í þeim sporum, að verklokum eftir um sex ár, að þessi hafi orðið raunin enn eina ferðina. Það er vert að hafa þetta í huga í þeirri umræðu sem er einmitt þessa dagana, mikilvægri umræðu, um kostnaðaraðhald í opinberum framkvæmdum. Dæmin eru endalaus.

Sporin hræða í þessum efnum. Við erum þessa dagana að ljúka við byggingu nýs sjúkrahótels á þessum sama reit með kostnaðaráætlun upp á 2 milljarða. Verkið er þegar komið 18 mánuði fram yfir áætluð verklok og engar upplýsingar fást um hvaða kostnaðarauka það hefur haft í för með sér. Þetta er ekki trúverðugt þegar við leggjum af stað í margfalt dýrari framkvæmd við sjúkrahúskjarnann sjálfan. Það er mikilvægt að fá við því fullnægjandi svör hver er endanlegur kostnaður sjúkrahótelsins, en ég vona svo sannarlega að framkvæmdin við meðferðarkjarnann sjálfan gangi betur, bæði tímalega séð en ekki síður hvað kostnaðinn varðar.