149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

störf þingsins.

[14:00]
Horfa

Þorgrímur Sigmundsson (M):

Herra forseti. Ég kem hér upp í fyrsta skipti. Það eru sannarlega mörg mál sem brenna á mér, mál sem skipta miklu. Ég geri mér samt grein fyrir því að á þessum stutta tíma kemst ég ekki yfir nema fáein atriði. Ég verð þó að nefna dæmi.

Þessa dagana er verið að halda áfram með uppbyggingu á Landspítala við Hringbraut sem ég hygg að séu einhver þau alvarlegustu mistök sem gerð hafa verið um langa hríð. Ég tel að við sem þjóð séum ekki búin að bíta úr nálinni með það klúður. Það er með ólíkindum að hægt sé að nefna hér flokka sem seldu þetta fyrir ráðherrastóla.

Ég verð að nefna nýlega framkomna samgönguáætlun, en í henni er fyrirbærið borgarlína tekið fram yfir nauðsynlegar vegabætur úti á landi. Það er nefnilega, herra forseti, að víða úti á landi þarf fólk að sætta sig við að keyra ónýta vegi. Ég nefni Brekknaheiði í því sambandi, brúna yfir Skjálfandafljót, Suðurfjarðaveg og að sjálfsögðu er hægt að nefna ótal fleiri. Það sem mér gremst þó mest er pólitískt kjarkleysi kjörinna fulltrúa þegar kemur að landsbyggðinni. Það er endalaus bútasaumur sem ýmist er kallaður brothættar byggðir, efnahagslega köld svæði eða fleira þess háttar. Þetta er vissulega viðleitni til að hjálpa þessum svæðum en það breytir ekki því að nálgunin er að mínu mati röng. Við eigum að gera þeim fyrirtækjum og fólki sem kýs að búa á landsbyggðinni kleift að vera þar. Við þurfum ekki einu sinni að finna upp hjólið.

Ég nefni sérstaklega Nordic Powerhouse-verkefnið í Bretlandi. Við þurfum að beita sérstökum skattaívilnunum við nýframkvæmdir á landsbyggðinni. Ég nefni þá leið sem Norðmenn fara með mismunandi sköttum eftir búsetu. Ég kalla eftir pólitískum kjarki til að fara leiðir til að koma til móts við landsbyggðina. Væri það ekki sjálfsagt mál að lækka skatta þeirra sem búa úti á landi? Eru þeir að fá það sama í þjónustu og aðrir þrátt fyrir að í mörgum tilfellum leggi þeir a.m.k. jafn mikið til þess? Það er nefnilega svo að í mörgum tilfellum kostar það fólk á landsbyggðinni gríðarlegt fé að nýta sér þá þjónustu sem allir eiga að hafa jafnan aðgang að. (Forseti hringir.)

Hvað er t.d. að því að hafa lægri skatta á nýframkvæmdum á efnahagslega köldum svæðum og hvetja þannig til uppbyggingar?