149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Tjáningarfrelsið er undirstaða lýðræðisins. Mig langar að fagna því að á samráðsgátt Stjórnarráðsins séu fram komin svokölluð IMMI-frumvörp sem síðar verða lögð fram á Alþingi. Af því tilefni vil ég minnast þess að frumvörpin eru afsprengi vinnu sem fór af stað við ályktun Alþingis árið 2010, en 1. flutningsmaður tillögunnar var þáverandi hv. þm. Birgitta Jónsdóttir.

Ég mun fjalla um frumvörpin efnislega þegar þau koma hingað inn en ég vil reyna að endurvekja neista sem kviknaði eftir efnahagshrunið 2008. Þótt hrunið hafi falið í sér gríðarlegt tjón fyrir samfélagið allt bjó það samt til ákveðinn drifkraft. Fyrir hrun var ríkjandi sú hugmynd að allt væri svo fínt að við þyrftum ekkert að leggja á okkur til að vera best í einhverju, en eftir hrun snerist það við og samfélagið áttaði sig á því að til þess að standa undir orðstír þarf að eiga hann skilið.

Þrátt fyrir myrkrið urðu nokkrir draumar til úr öskunni og úr varð m.a. metnaður til að við yrðum fremst í tjáningar- og upplýsingafrelsi og til fyrirmyndar, best. Heimurinn var fullfljótur að fagna og hefur Ísland síðan þá notið þess orðstírs að vera fremst í vernd uppljóstrara og tjáningar- og upplýsingafrelsis. Því miður hefur sá orðstír verið fullkomlega óverðskuldaður og staðan í dag er reyndar frekar pínleg þegar við sem hugsum mikið um málaflokkinn höfum heyrt lofræðurnar frá útlendingum sem ekki vita betur. Við höfum í rauninni fengið að njóta ágóðans af þeim orðstír án þess að lyfta litla fingri til að verðskulda hann. Smátt og smátt áttar fólk erlendis sig á því.

Þess vegna er gríðarlegt fagnaðarefni að frumvörpin séu á leiðinni inn í þingið. Við getum enn þá raungert drauminn um að Ísland verði ekki bara nógu gott heldur best í málefnum tjáningar- og upplýsingafrelsis og ekki bara notið orðstírsins eins og við höfum gert síðan 2010 heldur einnig verðskuldað hann.

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir sýndan metnað.