149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir að hefja máls á þessum mikilvæga þætti heilbrigðisþjónustunnar og heilbrigðiskerfisins okkar sem eru forvarnir, þó að þær teygi auðvitað anga sína inn í samfélagið allt og eigi ekki síður heima á öðrum sviðum samfélagsins en í heilbrigðisþjónustunni, þ.e. í menntakerfinu, félagsþjónustunni og í öllu því sem límir samfélagið saman. Alls staðar höfum við áhrif á það að tryggja og stuðla að sem bestri heilsu.

Hér á landi hefur um árabil verið unnið öflugt forvarnastarf og sumt er þeirrar gerðar að eftir því hefur verið tekið um lönd og álfur og full ástæða fyrir okkur til þess að vera stolt af því sem vel hefur verið gert. Það byggist alltaf á þverfaglegri vinnu, samstarfi og samvinnu í samfélaginu. Áhrifaþættir heilbrigðis eru auðvitað mjög margir og lýðheilsa snertir marga aðra málaflokka eins og ég nefndi áðan og til viðbótar við þá sem ég hef þegar nefnt má nefna umhverfismál og efnahagsmál, því að efnahagsmálin og kjaramálin eru líka lýðheilsumál í vissum skilningi. Það eru beinlínis auknar líkur á heilsubresti og heilsufarsvanda ef fólk býr til að mynda við fátækt.

Hv. þingmaður spyr hvernig ráðherra hyggst beita sér. Nú er í gildi lýðheilsustefna til ársins 2030 en meginmarkmið hennar er að stuðla að heilsueflandi samfélagi og bæta lýðheilsu á öllum aldursskeiðum með sérstakri áherslu á börn og ungmenni undir 18 ára aldri. Samkvæmt lögum er það embætti landlæknis sem er ætlað að stuðla að heilbrigði landsmanna, m.a. með því að efla lýðheilsustarf í landinu og vinnur embættið að mörgum heilsueflandi verkefnum. Þar má nefna verkefni um heilsueflandi samfélög í samstarfi við sveitarfélög og opinberar stofnanir o.s.frv. Embættið hefur líka stýrt verkefninu Heilsueflandi skóli frá árinu 1999. Lýðheilsuvísarnir hafa verið gefnir út, komu í þriðja sinn út nú í byrjun sumars. Ég vil hvetja þingmenn til að kynna sér lýðheilsuvísana því að þeir eru gott verkfæri til þess að skoða þróun mála í lýðheilsumálum í landinu. Þeim er skipt eftir landshlutum og er ætlað að auðvelda bæði sveitarfélögum og heilbrigðisþjónustunni og skólakerfinu til þess að greina stöðuna í sínu umdæmi og bregðast við í samræmi við það.

Þá vil ég líka nefna að úthlutað hefur verið sérstaklega úr lýðheilsusjóði frá árinu 2012, en lýðheilsusjóður hefur það hlutverk að styrkja lýðheilsustarf í landinu.

Þá er náttúrlega ótalin almenn og sérhæfð heilbrigðisfræðsla í heilbrigðiskerfinu öllu og í skólum landsins.

Hv. þingmaður spyr í öðru lagi með hvaða hætti sú sem hér stendur ætli að sjá til þess að grasrótarsamtök eins og SÁÁ og viðlíka samtök geti unnið samhliða og með mismunandi stjórnsýslustigum. Ég legg áherslu á mikilvægi slíkra grasrótarsamtaka sem hafa haft mjög mikil áhrif á þróun og uppbyggingu íslensku heilbrigðisþjónustunnar, en vil jafnframt nefna það að við þurfum ávallt að gæta að því að þeir hagsmunir sem þar eru í fyrirrúmi eru þeir sem kerfið á að þjóna. Það er afar mikilvægt að hlusta á sjónarmið þeirra sem þjónustuna veita, grasrótarsamtakanna, þeirra rödd er mjög mikilsvert innlegg inn í vinnu ráðuneytisins og hefur verið leitað sérstaklega eftir þeim röddum.

Samvinna þvert á stofnanir er mikilvæg. Við sjáum það í mörgum verkefnum. Það eru mikil sóknarfæri í samráðsgáttinni. Þar er markmiðið að auka gagnsæi og möguleika almennings í þátttöku í stefnumótun. Við auglýsum á hverju ári eftir umsóknum um styrki frá félagasamtökum vegna sérstakra verkefna. Í næsta mánuði mun ég efna til heilbrigðisþings sem verður opið öllum, þar á meðal þeim aðilum sem hv. þingmaður nefnir.

Þingmaðurinn nefnir í þriðja lagi hvort unnið sé að auknum forvörnum vegna geðheilbrigðisvanda, ekki síst hjá ungu fólki. Geðheilbrigðismál eru mjög víðfeðmur málaflokkur. Þar þarf margt að koma til. Við finnum fyrir því í ráðuneytinu og auðvitað finna hv. þingmenn fyrir því líka að það er vitundarvakning í samfélaginu varðandi geðheilbrigðismál sem endurspeglast m.a. í stjórnarsáttmála þessarar ríkisstjórnar. Ég hef lagt mikla áherslu á eflingu geðheilbrigðismála og styrkingu málaflokksins á öllum stigum heilbrigðisþjónustunnar, bæði í forvörnum en ekki síður í heilsugæslunni. Liður í styrkingu heilsugæslunnar á landsvísu er bætt geðheilbrigðisþjónusta þar sem við erum að fjölga sálfræðingum og stofna geðheilsuteymi. Það sjáum við á fjárlagatillögum fyrir árið 2019, við leggjum til nýjar 650 milljónir til að styrkja geðheilbrigðisþjónustu innan heilsugæslunnar.

Við höfum lagt áherslu líka á aðgerðaáætlun til að fækka sjálfsvígum, auk þess sem embætti landlæknis hefur nýlega gefið út leiðbeiningar um skaðsemi kannabisefna og fleiri atriði má nefna sem ég, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, fæ vonandi ráðrúm til þess að tala um þau í minni seinni ræðu.