149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:16]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Aðkoma stjórnvalda er nauðsynleg til að auka forvarnir með markvissum aðgerðum og til að tryggja fjármagn til að hrinda þeim í framkvæmd. Í þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar sem nú er í vinnslu hjá hv. velferðarnefnd, um tímasetta og fjármagnaða áætlun til næstu fjögurra ára til að styrkja stöðu barna, er sérstaklega fjallað um forvarnir.

Þar leggjum við til að áhersla verði lögð á heilsueflingu barna og ungmenna, m.a. með því að auka hreyfingu og bæta næringu og fæðuval. Lögð verði áhersla á fræðslu og forvarnir gegn ofþyngd og bætt úrræði til meðferðar og aðgengi að hollum mat í leik og starfi.

Við leggjum einnig til að ungmennum verði veitt viðeigandi fræðsla um áhrif og afleiðingar áfengisneyslu, lyfjaneyslu, tóbaksneyslu og notkunar rafrettna ekki síður en ólöglegra vímuefna. Beitt verði forvörnum í vaxandi mæli til að bæta heilsu og líðan barna og ungmenna, sérstök áhersla verði lögð á almennar forvarnir og fræðslu í samfélaginu er varðar andlega og félagslega líðan, ofbeldi gegn börnum og vanrækslu. Það verði gert með því að leggja aukna áherslu á geðrækt, hollar tómstundir fyrir öll börn og uppbyggilega nýtingu frítíma og samveru fjölskyldunnar.

Í samvinnu við frjáls félagasamtök og sveitarfélög verði bætt aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi, ekki síst þeirra sem búa við veikan fjárhag eða tilheyra jaðarhópum í samfélaginu.

Samfylkingin leggur jafnframt til að tryggt verði greitt aðgengi allra barna að sálfræðiþjónustu, bæði í skólum og á heilsugæslum um allt land, ásamt því að börn fái kynningu á þjónustu sem í boði er og á þeim reglum sem gilda, svo sem um rétt barna til trúnaðarsamskipta. Og að fötluðum börnum verði tryggður allur nauðsynlegur stuðningur og þjónusta og þau efld og styrkt til virkni. Í þessu felast ekki síður forvarnir.