149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:25]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka málshefjanda fyrir góða og þarfa umræðu og hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að vera með okkur í dag.

Hv. málshefjandi talar um þrenns konar forvarnir. Hann talar um vímuefnavandann. Yfir 600 manns eru á biðlista eftir því að fá aðstoð, eftir því að fá hjálp. Hvers vegna óskar fólkið eftir hjálp? Hvers vegna er það svona veikt? Hvað getum við gert til að koma í veg fyrir að þetta séu svona margir einstaklingar og svona mikið veikir? Þar er komið að okkur að byggja upp forvarnir.

Hvers vegna er geðheilbrigðisvandinn svona yfirgripsmikill í dag? Tengist það kannski allt saman, vímuefnavandi, geðvandi? Börnunum okkar líður illa þegar þau fá ekki greiningu strax, bíða eftir henni langalengi, jafnvel í eitt til tvö ár, eftir því að geta virkilega gengið í skólann og notið þess að vera til og vera nemandi í skólanum. Þau ná ekki athygli, geta ekki lesið.

Síðast en ekki síst er talað um annars stigs forvarnir. Það kom í ljós í þætti sem við sáum í gærkvöldi þar sem talað var um öryrkja að það er engan veginn öðruvísi brugðist við gagnvart þeim sem eru fjölfatlaðir og þeim sem lenda í slysum, að hugsa sér.

Virðulegi forseti. Ég held að hér séu töfraorðin snemmtæk íhlutun. Það þarf að grípa fólk, það þarf að vera öryggisnet og við þurfum líka að fylgja málunum eftir. Forvarnir eru lykilatriðið í öllu saman en við megum ekki gleyma því að við verðum að horfa á þetta heildstætt því að hvað fylgir öðru.