149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:28]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á að þakka málshefjanda, Sigurði Páli Jónssyni, fyrir að setja þetta brýna mál á dagskrá. Heilbrigðiskerfi vestrænna ríkja hafa gjarnan verið byggð upp til að greina og lækna sjúkdóma. Okkur er tamt að bregðast við því sem orðið er og leggja áherslu á að meðhöndla skaðann eins vel og hægt er.

Sú nálgun er auðvitað áfram mikilvæg. Hún er nauðsynleg til að heilbrigðisþjónustan okkar standi áfram undir því að vera á meðal bestu þjónustunnar í heimi. Við þurfum líka að fjárfesta í heilsueflingu og forvörnum. Bæði með fé og með hugarfarsbreytingu. Heilbrigðismál verða líka að snúast um fyrirbyggingu sjúkdóma. Við búum við þá staðreynd að lífsstílstengdir sjúkdómar eru orðnir algengasta orsök heilsutaps í okkar heimshluta og því hlýtur heilsuefling og forvarnir, ekki síst í geðverndarmálum, að vera forgangsmál í heilbrigðisþjónustunni, ekki bara vegna augljóss ávinnings í formi betri lífsgæða heldur vegna þess að hér eigum við raunverulegan möguleika á að ná tökum á þeim mikla kostnaðarauka sem við höfum búið við og sem er áfram í spilunum í heilbrigðiskerfinu.

Ef vel á að vera eiga heilsuefling og forvarnir að vera forgangsmál í heilbrigðisþjónustunni sem langtímafjárfesting í heilbrigði og vellíðan þjóðarinnar. Það þarf að blása til sóknar í þessum málaflokki með samræmdri stefnu. Frekari sóknar, má segja, vegna þess að við höfum alla burði til að vera fyrirmyndarríki. Við höfum dæmi um það, kannanir sýna að íslenskir unglingar koma mjög vel út, reyndar allra þjóða best í samanburði OECD-landa hvað varðar áfengisdrykkju, reykingar og annað slíkt.

Unglingarnir okkar eru þannig til fyrirmyndar. Það erum kannski við stjórnmálamenn sem ráðum ferðinni í stefnumótun og framkvæmd og dreifingu fjármuna og dreifingu áherslna og því hvernig við tölum um hlutina. Við ráðum ferðinni svolítið hér og mögulega truflar það okkur að þetta er ekki átaksverkefni. Það þarf hugarfarsbreytingu sem tekur miklu lengri tíma að skila ávinningi en eitt kjörtímabil.

Ég tek undir það sem hér kemur fram og er undirliggjandi, þetta er ekki þverpólitískt mál, þetta er mál allra sem hafa raunverulegan áhuga á (Forseti hringir.) að við náum tökum á þessum málum sem heild. Ég verð að koma betur að því í næstu umferð.