149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:30]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda, hv. þm. Sigurði Páli Jónssyni, fyrir umræðuna og sömuleiðis hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að vera hér. Ég vil sérstaklega ræða geðheilbrigðismál sem eru þau mál sem mér finnst skipta hvað mestu máli í þessari umræðu. Það er erfitt að ákveða og það er spurning hvort yfirleitt eigi að ákveða hvort kemur á undan, geðræn veikindi eða neysla vímuefna. Kannski á alls ekki að hugsa um þau mál í eins konar tvíhyggju. Það sem skiptir hvað mestu máli er að við höldum áfram að huga að forvörnum á öllum sviðum mannlífs. Forvarnir eiga í mínum huga að vera leiðarstef manneskjunnar frá vöggu til grafar.

Það er að verða einhvers konar vitundarvakning í samfélaginu. Við finnum það sannarlega öll með einhverjum hætti á eigin skinni. Það er okkar sem fyrr í þessum sal að styðja og standa fast að því að forvarnir, eins yfirgripsmikið hugtak og það er, skipi þann sess sem þær hafa gert í gegnum árin. Við eigum aldrei að hugsa um forvarnir sem átaksverkefni heldur verðum við að sjá til þess að þær séu alltaf virkar.

Mig langar í lokin að benda á að forvarnir kosta lítið í samanburði við þann ávinning sem þær skila. Okkur ber því að huga sérstaklega að frjálsum félagasamtökum sem beita sér sérstaklega í þessum málaflokki. Ég vil því hvetja heilbrigðisráðherra til að hafa það í huga, því að oft hefur verið þörf en nú er nauðsyn.