149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:38]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að taka undir með þeim sem hafa bent á að þetta sé ekki átaksverkefni. Mig langar að stíga skrefinu lengra og segja: Þetta er líka verkefni sem þarf að breytast í tímans rás því að samfélagið okkar breytist þessa dagana og síðustu áratugi mjög hratt. Allt lítur út fyrir að það muni breytast enn þá hraðar næstu áratugina.

Ég veit ekki hvort það er bara ég en mér hefur sýnst samfélag okkar þróast þannig að það verði sífellt erfiðara að halda sönsum því að heimurinn er ekki bara að verða flóknari, hann er líka að verða skrýtnari. Það sést æ betur hversu stór hluti af okkar samfélagi verður ekki svo auðveldlega útskýrður með einhverjum yfirveguðum greiningum á því hvað geti talist eðlileg mannleg hegðun.

Geðheilbrigði er samt enn þá alveg svakalegt tabú og ætti engan að undra því að geðheilsan varðar karaktereinkenni, ristir mjög djúpt í sálina hjá fólki. Ég get ekki ímyndað mér neitt persónulegra en hugsanir fólks. En nú þegar við ætlum að reyna að opna umræðuna um geðheilbrigði þurfum við skyndilega að fara að tala opinskátt og opið, jafnvel opinberlega, og vísindalega um málefni sem hingað til hefur verið afar persónulegt og jafnvel byggt fyrst og fremst, ætla ég að leyfa mér aðeins að fylla í eyðurnar, á trúarlegum grunni í gegnum söguna. Það er aðallega í trúnni sem fólk hefur fundið einhver svör við stóru spurningunum í lífinu, fundið einhvern ballans í því hvernig það eigi að díla við þetta líf. Núna þegar við búum í þessum miklu flóknari heimi þurfum við auðvitað að víkja af þeirri braut, og kominn tími til reyndar ef ég væri spurður, en það þýðir líka að við þurfum að bæta það tjón, og það er tjón, með aðstoð í geðheilbrigðismálum, bæði forvörnum og öðru.

Það er með geðheilbrigðið alveg eins og vímuefnin að mér finnst mjög erfitt að tala bara um forvarnir án þess að fara út í allt hitt. Þetta er mjög stórt málefni. En mig langar að ljúka þessu á einni setningu sem er reyndar kannski ekki að öllu leyti í samhengi við þetta efni en mér finnst hún bara svo góð að mér finnst hún þurfa að hafa verið sögð hér:

Það er enginn mælikvarði á heilbrigði að vera vel aðlagaður helsjúku samfélagi.