149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

forvarnir.

[14:45]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Forseti. Ég nefndi áðan að Ísland hefði alla burði til að vera fyrirmyndarríki í þessum málum þrátt fyrir allt. En það eru blikur á lofti, það hefur komið fram í máli margra hér. Til viðbótar þessu fitnar íslensk þjóð hratt. Við fitnum hraðar en samanburðarþjóðir með tilheyrandi heilsufarsvandamálum.

Annar þáttur sem við verðum að ná tökum á varðar geðheilsu unglinganna okkar sem sýna vaxandi einkenni kvíða og þunglyndis. Þar erum við sannarlega ekkert eyland. Því hefur verið spáð að árið 2020 verði þunglyndi önnur stærsta orsök örorku í heiminum á eftir hjarta- og æðasjúkdómum. Nú þegar eru slíkar geðraskanir algengasta orsök örorku hér á landi og til viðbótar sýna rannsóknir að stærstur hluti þeirra geðraskana sem fólk glímir við á fullorðinsárum hefur komið fram fyrir 25 ára aldur.

Það er einfaldlega nauðsynlegt fyrir okkur sem samfélag að finna leiðir til að efla geðheilsu og vellíðan barna og unglinga, efla forvarnir í samvinnu skóla og heilbrigðisyfirvalda og auka aðgengi að geðheilbrigðisþjónustu. Allt eru það verkefni sem eru í farvegi.

Til viðbótar eru góðu fréttirnar þær að við eigum frábært fagfólk sem hefur menntað sig á þessu sviði og hefur helgað starfsferil sinn því að bæta lýðheilsu okkar Íslendinga. Spurningin er bara hvernig við nýtum þá þekkingu, þá færni og þann áhuga sem best.

Heilbrigðiskerfi um allan heim standa frammi fyrir miklum áskorunum sem ekki er hægt að mæta með skipulagsbreytingum eða niðurskurði á einum stað til að mæta kostnaðaraukningu á öðrum stað. Við þurfum einhverjar aðrar lausnir. Sú nálgun mætir ekki þörfum eða væntingum, hvorki sjúklinga né starfsfólks.

Nýsköpun þarf að vera hluti af lausninni. Verkefni sem nýta tækni og samfélagsmiðla í ríkum mæli, verkefni sem miða að því að hvetja fólk til hreyfingar, verkefni sem miða að því að vinna gegn staðalímyndum og kynjahyggju í skólum og á vinnustöðum, sem er gríðarlega mikilvægt til að uppræta rótgróna fordóma í samfélaginu sem beinast ekki síst gegn fólki með geðræn vandamál. Þannig mætti lengi telja.

Þó að ég myndi sannarlega vilja sjá nýsköpun í ríkari mæli innan ríkisrekna hlutans, (Forseti hringir.) og treysti því að ég geri það í náinni framtíð vegna þess að það er stór hluti af lausninni, (Forseti hringir.) er það samt svo að flest slíkra verkefna (Forseti hringir.) spretta upp úr grasrótinni og hjá frjálsum félagasamtökum. (Forseti hringir.) Mig langar til að ljúka máli mínu hér til að hvetja (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra (Forseti hringir.) til þess að hlúa að (Forseti hringir.) þeim hluta kerfisins.