149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[14:53]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er lagt til, í samræmi við ákvæði laga um Stjórnarráð Íslands, að í stað velferðarráðuneytis komi annars vegar heilbrigðisráðuneyti og hins vegar félagsmálaráðuneyti. Með breytingunni fjölgar ráðuneytum úr níu í tíu og mun ég fara yfir rökin fyrir þessari tillögu sem ég mun leita eftir stuðningi Alþingis við.

Herra forseti. Söguleg hefð er fyrir sérstökum ráðuneytum félagsmála annars vegar og heilbrigðismála hins vegar. Félagsmálaráðuneytið var til sem sérstakt ráðuneyti árið 1946, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið á árinu 1970. Velferðarmál hafa eftir 1970 færst á milli þessara tveggja ráðuneyta eftir stefnu stjórnvalda og því hvað talið er á hverjum tíma hentugt og mikilvægt fyrir framgang málaflokkanna. Einnig hafa velferðarmál verið flutt frá öðrum ráðuneytum til þessara ráðuneyta, til að mynda þegar vernd barna og ungmenna var flutt frá menntamálaráðuneytinu til félagsmálaráðuneytisins árið 1993.

Meginsjónarmiðin að baki þeirri breytingu sem hér er lögð til eru í fyrsta lagi að skýra verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins í samræmi við það sjónarmið að eðlislík málefni skuli heyra undir eitt og sama ráðuneyti og í öðru lagi að skerpa á pólitískri forystu í mikilvægum málaflokkum ráðuneytanna, einkum í málefnum barna, aldraðra, mannvirkja, jafnréttis. Einnig er ætlunin að tryggja betri yfirsýn og stuðla að markvissari forystu og stjórnsýslu í málaflokkum hvors ráðuneytis fyrir sig, þannig að þeim verði betur gert kleift að sinna þeim umfangsmiklu lögbundnu verkefnum sem nú heyra undir velferðarráðuneytið og helga sig stefnumótun, framkvæmd og eftirfylgni sinna málaflokka.

Herra forseti. Í gegnum þetta eina ráðuneyti fer meira en helmingur allra ríkisútgjalda, 51% ríkisútgjalda. Þetta eru stórir málaflokkar. Þarna höfum við séð hvað mesta útgjaldaaukningu á undanförnum árum og áratugum. Ekki aðeins vegna pólitískra ákvarðana, sem vissulega hafa verið þær að styðja við heilbrigðiskerfið, svo að dæmi sé tekið, og ráðast í umbætur á framfærslukerfi aldraðra, svo að annað dæmi sé tekið, heldur líka vegna lýðfræðilegrar þróunar sem ekki hefur verið ráðið við. Nefni ég þar til að mynda lýðfræðilega fjölgun öryrkja og vaxandi lyfjakostnað sem stafar ekki síst af því að við höfum séð miklar framfarir í lyfjageiranum sem um leið hafa kostað gríðarlega mikið fyrir ríki heimsins.

Þessi hefur þróunin verið og kostnaður við þessa málaflokka hefur aukist og er nú meira en helmingur ríkisútgjalda, sem er umhugsunarefni. Það er sannfæring mín að breytt skipan þessara ráðuneyta muni styrkja stjórnsýslu heilbrigðis- og félagsmála og auka svigrúm hvors ráðherra fyrir sig til að rækta sitt stefnumótandi hlutverk, og þar með talið að fylgja eftir stefnumálum ríkisstjórnar eins og þau birtast í stjórnarsáttmála en líka að fylgja því eftir að þarna eru gríðarlega stórir póstar á ferð sem hvor ráðherra um sig ber ábyrgð á.

Gert er ráð fyrir því að stjórnarmálefni núverandi velferðarráðuneytis muni skiptast á milli heilbrigðisráðuneytis og félagsmálaráðuneytis með sama hætti og þau skiptast nú á milli heilbrigðisráðherra og félags- og jafnréttismálaráðherra samkvæmt gildandi forsetaúrskurði, að því undanskildu að jafnréttismál, þar á meðal málefni einstaklinga með kynáttunarvanda og hinsegin fólks, flytjast til forsætisráðuneytis og málefni mannvirkja, sem nú heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið, flytjast til nýstofnaðs ráðuneytis félagsmála.

Með breytingunni er ráðgert að embættistitill ráðherra félagsmála breytist og verði félags- og barnamálaráðherra og endurspeglar það áform um aukna áherslu á málefni barna og ungmenna. Þegar hefur verið sett á laggirnar þingmannanefnd um málefni barna af hálfu félagsmálaráðherra sem undirstrikar þessar áherslur enn frekar og ég vænti mikils af. Síðar í dag munum við jafnframt fjalla um frumvarp til laga um breytingar á lögum um umboðsmann barna sem styrkja enn frekar stöðu barna í íslensku samfélagi og stuðla að áframhaldandi innleiðingu barnasáttmálans.

Ég vísaði hér til stjórnarsáttmála þar sem rík áhersla er lögð á velferðarmál og eflingu heilbrigðiskerfis og uppbyggingu félags- og velferðarkerfis. Þetta eru allt lykilþættir til að byggja hér upp sterkt samfélag. Með breytingunni skapast ákveðinn grundvöllur fyrir nýja sókn á þessum málefnasviðum.

Ég nefndi áðan málefni barna en þar er fyrirhugað að endurskoða barnaverndarlögin, félagslega umgjörð í málefnum barna og þjónustu við börn á landsvísu. Markmið þeirrar endurskoðunar er að börn verði ætíð sett í forgang í allri nálgun innan málaflokksins og tryggð verði íhlutun í mál svo fljótt sem kostur er og samfella í þjónustu við börn og fjölskyldur þeirra. Meðal verkefna þessa nýja ráðuneytis félagsmála verður þá að móta stefnu, framtíðarsýn og markmið í málefnum barna, forgangsraða og útfæra þau markmið í framkvæmdaáætlun til fjögurra ára sem verður lögð fram á Alþingi og unnið verður að stefnunni og framkvæmdaáætlun undir forystu stýrihóps.

Gert er ráð fyrir að ráðherra og stýrihópunum til ráðgjafar verði sérstakt ráð með fulltrúum stofnana, félagasamtaka og fleiri aðilum þar sem börn munu fá beina aðkomu og stuðning við að tjá afstöðu sína.

Ég nefndi þá nefnd sem þegar hefur verið stofnuð um málefni barna, þverpólitíska nefnd þingmanna úr öllum flokkum.

Loks verður leitast við að tengja betur saman stefnu í málefnum barna og stefnu í efnahagsmálum, greina hvaða áhrif einstakir tekju- og útgjaldaliðir fjárlaga hafa á börn og hvernig unnt verði að samþætta velferð barna almennri fjárlagagerð líkt og gert hefur verið til að mynda í verkefnum sem tengjast kynjaðri fjárlagagerð. Framangreindar umbætur í málefnum barna ganga út frá því meginsjónarmiði að aukið samstarf sé lykilþáttur við heildarendurskoðun núverandi kerfis, þjónustunnar og úrræða fyrir börn.

Ríkisstjórnin stefnir jafnframt að því að endurskoða og bæta stefnumótun stjórnvalda í málefnum aldraðra og hafa heilbrigðis- og félagsmálaráðherra þegar hafið samráð og heildstæða og ítarlega greiningu innan stjórnsýslunnar á þeim málaflokki. Í því samhengi er starfandi hópur í samstarfi við Landssamband eldri borgara þar sem verið er að fara yfir þær breytingar sem gerðar voru á kerfinu 2016 og meta hvernig þær koma út fyrir ólíka hópa aldraðra. Það er erfitt að tala um eldri borgara sem einn heildstæðan hóp, staða þeirra er mjög mismunandi. Þar erum við bæði með fólk sem er vel stætt og fólk sem er illa stætt og það skiptir máli að meta hvernig þessar breytingar birtast fyrir þessa ólíku hópa. Vegna þess hve stór og fjölmennur og innbyrðis mismunandi þessi hópur er er mjög tímabært að endurmeta skilgreiningu á þjónustu við aldraða á öllum sviðum samfélagsins og jafnframt að meta hvort enn er þörf á sérstakri löggjöf um málefni aldraðra. Flest eða öll málefni samfélagsins varða jú aldraða og lífeyrisþega á einn eða annan hátt. Málaflokkurinn er mjög umfangsmikill, sívaxandi og það er ljóst að þörf er á víðtæku samráði stjórnvalda og allra hlutaðeigandi aðila við þá endurskoðun sem er fram undan. Meginmarkmið hlýtur að vera að styrkja umgjörð stjórnsýslunnar gagnvart öldruðum í því skyni að auka lífsgæði þessa hóps og mæta ólíkum þörfum.

Ég nefndi hér áðan að jafnréttismál yrðu flutt til forsætisráðuneytis. Jafnréttismál snerta starfssvið allra ráðuneyta. Mörg ráðuneyti fara með mjög viðamikla málaflokka sem geta haft úrslitaáhrif á stöðu og þróun jafnréttismála. Eins og kunnugt er hefur Ísland komið vel út þegar við berum stöðu jafnréttismála hér á landi saman við önnur lönd og það er vel og því ber að fagna. Þar má til að mynda nefna stöðu okkar á lista World Economic Forum, þar sem Ísland hefur verið í efsta sæti í níu ár. Það skiptir máli að við höldum vel á spilum og eitt af því sem hefur staðið framþróun þessa málaflokks fyrir dyrum er að hann þarf að birtast í allri stefnumótun. Hann er ekki eingöngu sértækur málaflokkur sem heyrir undir félagsmálaráðuneyti heldur snýst hann um menntamál, um loftslagsmál, um efnahags- og ríkisfjármál. Jafnréttismálin eiga að vera okkar leiðarljós hvar sem við komum og hvaða stefnu sem við erum að vinna að. Það má segja að við höfum þegar slegið þennan tón með því að setja strax á laggirnar ráðherranefnd um jafnréttismál þegar ríkisstjórnin var stofnuð en eftir að hafa legið yfir þessu máli er það niðurstaða okkar að leggja til að jafnréttismálin verði flutt yfir til forsætisráðuneytis.

Endurskoðun jafnréttislaga hefur verið hafin. Þar er fyrirhugað að útvíkka jafnréttishugtakið þannig að það nái ekki eingöngu til jafnréttis kynjanna, heldur verði horft á þetta út frá víðtækari hugmyndum. Það skiptir máli sömuleiðis að sú stefnumótun skili sér inn í alla málaflokka og öll ráðuneyti. Þessum málaflokki fylgja líka málefni hinsegin fólks og þar er á dagskrá að leggja fram metnaðarfulla löggjöf um kynrænt sjálfræði sem mun leysa eldri löggjöf um einstaklinga með kynáttunarvanda af hólmi.

Það skiptir miklu máli að vel takist til við endurskoðun laganna og stjórnsýslunnar þannig að við höldum ekki bara okkar stöðu, ef svo má að orði komast, heldur gerum enn betur í jafnréttismálum. Það er sérstakt fagnaðarefni hvað við höfum fundið fyrir miklum breytingum, a.m.k. við sem höfum verið hér um nokkurt skeið á Alþingi, hvað jafnréttismálin hafa færst frá því að vera málaflokkur sem er á jaðri hinnar pólitísku umræðu yfir í það að vera miðlægur í hinni pólitísku umræðu. Það er frábær breyting sem ber að fagna. Ég held að við eigum einmitt að nota þá breytingu áfram til góðs innan stjórnsýslunnar þannig að við tryggjum þessi sjónarmið í allri stefnumótun.

Þá vil ég nefna stjórnarmálefni mannvirkja sem nú heyra undir umhverfis- og auðlindaráðuneytið. Lagt er til að þau flytjist til ráðuneytis félagsmála og er sú breyting m.a. lögð til með það fyrir augum að samþætta betur þau stjórnarmálefni er lúta að húsnæðismálum. Félags- og jafnréttismálaráðherra fer þegar með eðlisólík stjórnarmálefni á borð við húsnæðimál, Íbúðalánasjóð, húsaleigumál, málefni húsnæðissamvinnufélaga, byggingarsamvinnufélaga, fjöleignarhúsa, frístundabyggða og málefni vinnumarkaðar en þrátt fyrir þennan tilflutning verður áfram lögð rík áhersla á umhverfissjónarmið í þessum málaflokki.

Húsnæðismálin eru áberandi í stjórnarsáttmála þar sem lögð er áhersla á öruggt húsnæði óháð efnahag og búsetu sem eina af grundvallarforsendum öflugs samfélags. Þar þarf að sjálfsögðu, til að efla og auka jafnvægi á húsnæðismarkaði, að líta til ólíkra áskorana milli ólíkra landsvæða, greina vanda sem stafar frá fyrri tíð og tryggja að á hverjum tíma séu aðgengilegar greiningar og tölfræði um húsnæðisframboð og stuðla að bættu aðgengi landsmanna að öruggu húsnæði með eflingu stuðningskerfa og samræmdri stefnumörkun í uppbyggingu félagslegs húsnæðis, auknu gagnsæi á leigumarkaði og aukinni upplýsingagjöf um húsnæðismál. Stefnt er að því að hrinda í framkvæmd aðgerðum sem lækka þröskuld ungs fólks og tekjulágra inn á húsnæðismarkaðinn. Í því augnamiði verður stuðningskerfi hins opinbera endurskoðað þannig að stuðningurinn nýtist ekki síst þessum hópum. Í samskiptum ríkis og sveitarfélaga um tekjustofna og fjárhagsmál verður aukið lóðaframboð og gjaldtaka vegna nýbygginga sett á dagskrá ásamt því sem vinnu við endurskoðun á lögum, reglum og stjórnsýsluframkvæmd vegna byggingarframkvæmda verður fram haldið.

Ég undirstrika að áfram þurfa ólík ráðuneyti að vinna saman í þessum málum, þ.e. umhverfisráðuneytið, sem fer með skipulagsmál, samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, sem fer með málefni sveitarfélaga, og félagsmálaráðuneytið, sem fer þá með húsnæðismálin. Málefnin munu áfram skarast en það sama á að sjálfsögðu við um fleiri málaflokka. Ég nefni málefni aldraðra sem ég nefndi hér áðan, þau eru málaflokkur sem kemur við flest ráðuneyti.

Hvað kostar þetta allt saman, mun vafalaust einhver spyrja hér á eftir. Þá vil ég halda því til haga að þetta mun kosta og ég mun ekki draga neina dul á það. Að sjálfsögðu verður leitast við að halda rekstrarlegu hagræði eftir fremsta megni. Ráðuneytin tvö munu áfram samnýta ýmsa stoðþjónustu en uppskipting ráðuneytisins mun hafa í för með sér rekstrarlegan aðskilnað sem kann í einhverjum tilvikum að hafa í för með sér aukinn rekstrarkostnað. Þannig mun til að mynda ráðuneytisstjórum fjölga um einn við breytinguna, auk þess sem greina þarf málaskrá ráðuneyta og fjármálarekstur þó að unnið sé að því að efla sameiginlega stoðþjónustu í Stjórnarráðinu. Það hefur verið slegið á það mati að kostnaður við uppskiptinguna nemi 70 milljónum sem er umtalsvert minni kostnaður en við uppskiptingu innanríkisráðuneytis enda var þá einungis einn ráðherra í því ráðuneyti. Hér hafa verið tveir ráðherrar með tvo bílstjóra þannig að kostnaðurinn er kannski ekki mikill hvað það varðar. Hins vegar er fyrirhugað að auka við og efla stjórnsýslu, ekki síst vegna þessara stóru verkefna sem ég nefndi. Þegar við erum með 51% af ríkisútgjöldunum í einu ráðuneyti, sem verða nú tvö ráðuneyti ef Alþingi ljær þessari tillögu stuðning, þurfum við að horfa til þess hvaða verkefni eru hér undir. Ég nefni byggingu nýs Landspítala. Ég nefni lyfjakostnaðinn sem ég nefndi hér áðan. Ég nefni endurskoðun á almannatryggingakerfinu og ég nefni málefni barna sem við ætlum núna að setja í aukinn forgang.

Þó að kostnaður við uppskiptinguna sjálfa sé 70 milljónir, meðan kostnaður við uppskiptingu innanríkisráðuneytis var, samkvæmt mínum upplýsingum, um 150 milljónir á sínum tíma, geri ég ráð fyrir því að við munum kjósa að styrkja sérstaklega þessi ráðuneyti vegna þessara málaflokka. Ég vil nefna sem dæmi að við erum að fara í stærstu framkvæmd Íslandssögunnar, nýjan Landspítala við Hringbraut, og ég tel að þeim fjármunum sé vel varið að styðja betur við þá stjórnsýslu sem hefur eftirlit með þeirri framkvæmd og fylgist með og tryggir að þar gangi allt að óskum. Ég á von á því að frekari kostnaður geti orðið við þetta. Sömuleiðis vil ég nefna að jafnréttismálin flytjast til forsætisráðuneytisins og mín ætlan er að setja þar á laggirnar skrifstofu jafnréttismála. Slík skrifstofa hefur ekki verið fyrir hendi í félagsmálaráðuneytinu og þar verður því auglýst eftir skrifstofustjóra. Það stöðugildi kostar um 25 milljónir. Mér finnst mikilvægt að þessu sé haldið til haga.

Tíma mínum er lokið hér í pontunni. Ég gæti sagt margt meira en að lokinni þessari umræðu legg ég til að þessari tillögu verði vísað til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.