149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:11]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, það eru um 100 starfsmenn í velferðarráðuneytinu. Af þessum starfsmönnum eru heldur fleiri heilbrigðisráðuneytismegin, sem heyra undir þá málaflokka, og verða fleiri í ljósi þess að jafnréttismálin, sem eru þó ekki stór málaflokkur, munu flytjast yfir. Það liggur fyrir að það eru heldur fleiri heilbrigðisráðuneytismegin.

En eins og ég sagði áðan höfum við hug á að efla stjórnsýslu beggja málaflokka. Ég nefndi stóru verkefnin. Ég tel að það skipti verulega máli að við styðjum betur við stjórnsýsluna í kringum þau. Ég nefndi málefni barna, ég nefndi Landspítalann og almannatryggingar og þær breytingar sem við höfum verið að gera á þeim þar sem við vitum af reynslu að það liggur við að hver millimetrabreyting geti munað öllu. Við þekkjum það eftir breytingarnar á lögunum um almannatryggingar sem fóru í gegn 2016.

Það er vilji okkar að styðja þá stjórnsýslu. Þar erum við ekki að tala um fjölda starfsmanna en þó um nokkur stöðugildi (Forseti hringir.) sem við sjáum fyrir okkur beggja vegna í þessi afmörkuðu verkefni.