149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:14]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig eiginlega ekki á þessu andsvari. Það kom hér mjög skýrt fram að ástæðan fyrir þessari uppskiptingu er vilji til að styðja við stjórnsýslu þessara tveggja mjög svo mikilvægu málaflokka, ekki einhver samskiptavandi ráðherra. Ég hlýt nú bara að blása á eitthvað svona þegar talað er um samskiptanámskeið fyrir ráðherra. Ég gef ekkert fyrir það. Það þurfa allir ráðherrar að eiga í samskiptum.

Hv. þingmaður segir: Það er ýmislegt sem hægt væri að spara heilbrigðismálamegin og félagsmálamegin ef ráðherrarnir gætu unnið saman. Þetta á við um öll ráðuneyti. Menntamálaráðherra á hverjum tíma þarf að vinna vel með heilbrigðisráðherra. Það skapar til að mynda aukinn sparnað í kerfinu ef við erum með öflugar forvarnir, heilsueflingu og annað í skólunum. Samt erum við ekki endilega að tala um að það þurfi að gerast í gegnum sameiningu ráðuneyta, er það?

Þetta snýst um samstarf, heildarsýn og öflugri stjórnsýslu í tveimur risavöxnum málaflokkum, ekki bara krónur og aura, málaflokkum sem skipta okkur öll verulegu máli sem samfélag. Ég er (Forseti hringir.) alveg sammála hv. þingmanni um að þetta snýst ekki bara um krónur og aura. Þetta snýst um mjög mikilvæg verkefni fyrir okkar samfélagsgerð.