149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:19]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða spurningu. Eins og ég nefndi áðan eru hér engin náttúrulögmál. Það þekkjum við frá hinum Norðurlöndunum í því hvernig málaflokkum er raðað niður á ráðuneyti. Sú hugmynd að flytja Mannvirkjastofnun yfir í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið var reifuð. Niðurstaðan var sú að leggja til að þau málefni færu yfir í félagsmálaráðuneytið með þeim rökum sem ég fór yfir áðan, sem eru þau að mjög stór hluti húsnæðismálanna er í félagsmálaráðuneytinu. En það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á, lóðaframboð og annað slíkt heyrir undir sveitarstjórnarráðuneytið. Mannvirkjamálin verða í umhverfisráðuneytinu þangað til um áramót ef þau verða þá flutt, þar sem það eru líka rök fyrir að hafa þau í ljósi skipulagslöggjafar og annars.

Í þessu máli var farið yfir þessa valkosti. Þetta var niðurstaðan og horft til þess að í húsnæðismálum væri ekki síst þörf á öflugri stefnumótun. Við sjáum fram á breytt hlutverk Íbúðalánasjóðs, sem tekur að sér meira stefnumótandi hlutverk í húsnæðismálum. Þar var talið mikilvægt að þessi stofnun gæti verið ákveðin viðbót í þá stefnumótun.