149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:20]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Það tækifæri sem ég held að glatist núna er að sameina öll mannvirkjatengd mál, byggingartengd mál, í einu ráðuneyti, því að ég tel engar líkur á því að málefni sveitarstjórna verði nokkurn tímann flutt yfir í félagsmálaráðuneytið í fyrirsjáanlegri framtíð. Nú hefði verið lag að sameina öll þessi málefni þar inni, umhverfis- og skipulagsmálin, mannvirkjamálin og málefni sveitarfélaga. Ég hef í sjálfu sér ekki viðbótarspurningu til hæstv. ráðherra nema hún vilji bæta einhverju við það sem hún kom ekki að áðan. En ég hefði gjarnan vilja sjá þetta tækifæri nýtt úr því að ríkisstjórnin fer á annað borð af stað með þá vinnu að færa þessa málaflokka á milli ráðuneyta. Það hefði til að mynda verið algjörlega í takt við afstöðu Samtaka iðnaðarins til þessa máls sem eru þau samtök sem ég held að hafi ígrundaða skoðun á framkvæmdum í þessum málum.