149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:24]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er þeirrar skoðunar að mjög mikilvægt sé að ráðherra hafi skýrt afmarkaða pólitíska aðstoðarmenn. Mér finnast tveir aðstoðarmenn ekki of í lagt fyrir ráðherra. Sjálf var ég með pólitískan aðstoðarmann og pólitískan ráðgjafa í mennta- og menningarmálaráðuneytinu og fyrir því hafði verið hefð áður en lögunum var breytt sem hv. þingmaður vísar í, um að ráðherrar skyldu hafa tvo aðstoðarmenn. Það var hefð í því ráðuneyti vegna þess að ráðuneyti menntamála þótti þá stórt og umfangsmikið og mikilvægt að hafa starfslið til aðstoðar fyrir ráðherra.

Við erum með þá hefð hér að embættismannakerfið er embættismannakerfið og ráðningin þeirra sem eru ráðnir þar inn samkvæmt auglýsingu er fagleg. Miðað er við að fagnefndir geri tillögur til ráðherra og mér finnst betra að það sé eins gagnsætt og hægt er hverjir eru ráðnir inn á pólitískum forsendum, að það sé skilgreint, tveir aðstoðarmenn annars vegar og auðvitað oft formennska í nefndum. (Forseti hringir.) Ég nefni sem dæmi að ég kalla til utanaðkomandi aðila til að stýra vissum störfum. Það er ekki endilega pólitík á bak við það, stundum er bara verið að leita tímabundinnar sérfræðiþekkingar. Aðalmálið er að það sé gagnsætt.