149. löggjafarþing — 20. fundur,  16. okt. 2018.

breytt skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.

155. mál
[15:43]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Nú um stundir er talsvert rætt um vönduð vinnubrögð og traust til þess sem stjórnvöld hafast að. Er þar víða pottur brotinn eins og því miður of mörg dæmi sanna. Það er eitt og hálft ár síðan rætt var í þinginu um uppskiptingu innanríkisráðuneytisins. Það var að mörgu leyti gagnleg umræða. Langar mig að grípa aðeins niður í álit 1. minni hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar frá þeim tíma, með leyfi forseta:

„Fyrsti minni hluti tekur fram að sérstaklega hafi verið fundið að því eftir efnahagshrunið að ráðuneytin væru of mörg og of smá og þess vegna var ráðist í umfangsmiklar breytingar á Stjórnarráðinu til að styrkja það með sameiningu ráðuneyta. Þá var auk þess þannig um það búið í löggjöfinni um Stjórnarráðið að fleiri en einn ráðherra gætu skipað hvert ráðuneyti.“

Áfram vil ég fá að vitna í það álit:

„Fyrsti minni hluti telur ámælisvert að ekki hafi legið fyrir kostnaðarmat eða nýtt skipurit þegar málið var lagt fram og ber því þess merki að um sé að ræða fyrst og fremst ráðstöfun sem snýst um jafnvægi milli flokka í myndun ríkisstjórnar. Þannig eru ekki skýr efnisleg rök lögð til grundvallar ákvörðuninni og um að ræða skort á faglegum grunni sem viðunandi getur talist.“

Áfram skal vitnað í minnihlutaálitið:

„Fyrsti minni hluti telur málið vanreifað, fyrir því liggi ekki faglegur rökstuðningur, verið sé að tvístra starfskröftum í ráðuneytum í stað þess að samþætta og samnýta í þágu ábyrgrar ráðstöfunar opinbers fjár og sterkari ráðuneyta […]. Í þessu ljósi getur 1. minni hluti ekki stutt málið.“

Undir þetta skrifar minni hlutinn. Í minni hlutanum var einn hv. þingmaður þá, hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, fyrrverandi og núverandi ráðherra og er annar ráðherrann sem um ræðir í þeirri uppskiptingu sem nú er rætt um.

Mig langar líka til þess að vitna í annan ágætan hv. þingmann sem gerði grein fyrir atkvæði sínu með þessum hætti:

„Virðulegi forseti. Á sama tíma og ég tel að þessi tillaga sé ekki sérstaklega vel unnin, hún sé ekki byggð á neinum þeim úttektum sem gerðar hafa verið á Stjórnarráðinu, umbótatillögum sem Alþingi sjálft hefur samþykkt varðandi hvernig stjórnsýslunni ætti að vera fyrir komið, sérstaklega eftir hrun, þá virði ég rétt ríkisstjórnar hverju sinni til að skipa málum eins og þær vilja. Ríkisstjórnin hefur rétt til að fúska eins og hún vill. Þess vegna geri ég ekki athugasemdir við það þótt ég hefði kosið að faglega hefði verið staðið að málum, sérstaklega þegar við völd situr ríkisstjórn sem í sitja flokkar sem hafa haft ný og betri og bættari vinnubrögð á hraðbergi. Ég greiði ekki atkvæði.“

Umræddur hv. þingmaður er Kolbeinn Óttarsson Proppé.

Ég velti fyrir mér því hvernig stendur á því að hæstv. forsætisráðherra mælir fyrir frumvarpi sem virðist bera meira og minna öll þau sömu einkenni og gagnrýnd voru með svo harkalegum hætti á sínum tíma þegar innanríkisráðuneytinu var skipt upp. Hefur eitthvað breyst á þessum tíma um þau sjónarmið sem hv. þingmenn höfðu þá uppi um skiptingu ráðuneyta?

Ég hefði a.m.k. haldið að ítarlegri grein væri gerð fyrir nauðsyn þessarar uppstokkunar, ítarlegt kostnaðarmat á þessu máli, en svo er ekki. Ég sé það hér í kaflanum um kostnaðarmatið að talað er um — eða sameiginleg stoðþjónusta heitir það víst hér, ég held að ég sé að vitna í réttan passus. Best að hafa þetta rétt.

Við skulum sjá: Rökin að baki sameiningu ráðuneyta o.s.frv.

Svo kemur hérna:

„Uppskipting velferðarráðuneytisins hefur þó óhjákvæmilega í för með sér rekstrarlegan aðskilnað sem felur í sér aukinn rekstrarkostnað. Ráðuneytisstjórum fjölgar til að mynda um einn …“

Og áfram er talið.

Hér er ekki nokkur einasta tilraun gerð til þess að leggja mat á kostnaðinn. Engin.

Ég spyr: Hvernig í ósköpunum má það vera að hæstv. forsætisráðherra leggi fram svona óvandaða og óskilgreinda tillögu þar sem engin tilraun er gerð til þess að koma á móts við þau sjónarmið sem svo vandlega voru reifuð á sama tíma og öðru ráðuneyti var skipt upp?